Eitt Evrópuökuskírteini 2013
Svona mun nýja Evrópuökuskírteinið líta út.
Evrópuþingið hefur samþykkt að samræma ökuréttindi og að nýtt sameiginlegt og eins útlítandi ökuskírteini verði búið að innleiða á öllu Evrópska efnahagssvæðinu árið 2013. Kortið verður að stærð og lögun svipað og greiðslukort. Það leysir af hólmi öll sérþjóðleg ökuskírteini og skírteini sem eru til staðfestingar alls kyns sértækum og afmörkuðum ökuréttindum. Öll slík skírteini munu falla úr gildi í áföngum fram til ársins 2032.
Nýja ökuskírteinið verður að öllum líkindum með örgjörva sem inniheldur upplýsingar um handhafa þess. Vonast er til þess að með samræmingu ökuréttinda í Evrópu og nýju skírteini verði ekki lengur mögulegt fyrir þá sem missa ökuréttindin að öðlast ný ökuréttindi í öðru landi – ökuréttindi sem einig gilda í því landi sem svifti viðkomandi ökuréttindunum. Til að tryggja þetta betur verður komið á fót ökuréttindagagnabanka sem lögregla og aðrir eftirlitsaðilar hafa aðgang að.
Eina frávikið sem einstök lönd munu fá við útgáfu nýju Evrópuskírteinanna er að þau munu geta ráðið því hvort þau gefa út almenn ökuskírteini til 10 eða 15 ára. Ökuskírteini vöru- og rútubílstjóra verða þó einungis gefin út til fimm ára í senn.
Nokkur Evrópulönd eins og t.d. Þýskaland og Austurríki hafa gefið út ökuskírteini til almennra ökuréttinda sem gilda ævilangt. Fulltrúar þeirra á Evrópuþinginu voru lengi tregir til að samþykja ökuréttindi sem reglulega þarf að endurnýja, en létu af andstöðu sinni í mars á síðasta ári.
Ríflega 300 milljón ökumenn með einhverskonar ökuréttindi eru á Evrópska efnahagssvæðinu og um 110 mismunandi gerðir ökuskírteina eri í gildi í dag. Belgíski Evrópuþingmaðurinn Mathieu Grosch segir við BBC að sum þessara ökuskírteina séu svo forn að þau voru á s´ínum tíma gefin út af ríkjum sem ekki eru lengur til, eins og t.d Þýska alþýðulýðveldinu.
Jacques Barrot er yfirmaður umferðarmála hjá Evrópusambandinu. Hann segir við BBC að nýja Evrópuökuskírteinið verði mikilvægur þáttur í því að auka umferðaröryggi í Evrópu og koma í veg fyrir falsanir og hverskonar svik. Þá verði það til mikils hægðarauka fyrir alla evrópska ökumenn að geta framvísað skýru og auðlæsilegu ökuskírteini sem þekkist allsstaðar.