Eitt prik og einn mínus fyrir Icelandair
Í byrjun janúar næstkomandi fellur flugskattur danska ríkisins endanlega niður á Kastrupflugvelli, eins og fram kemur í nýjasta FÍB blaðinu. Upphæðin er 38 danskar krónur eða um 450 kr. íslenskar. Icelandair hefur tekið þessa niðurfellingu skattsins með í reikninginn og hefur lækkað “skatta og gjöld” sem þessu nemur í flugferðum til Kaupmannahafnar eftir áramótin.
En það sem eftir lifir þessa árs hefur Icelandair hins vegar hækkað “skatta og gjöld” á farseðlum til Kaupmannhafnar og er upphæðin nú komin í 8.450 kr. en var þar til nýlega 8.360 kr. Þessi hækkun kemur illa heim og saman við loforð upplýsingafulltrúa Icelandair um að “gjöldin” muni lækka þegar olíuverðið lækkar. Eins og FÍB hefur bent á, þá hefur verð á þotueldsneyti lækkað um 25% frá því í september. Þar sem eldsneytiskostnaður skýrir helminginn af “sköttum og gjöldum” Icelandair, þá ætti þessi helmingur (nákvæmlega 4.180 kr) að hafa lækkað um 25%, eða rúmar þúsund krónur. En í staðinn hefur gjaldið farið upp um 90 kr.
Er ekki full ástæða til að fréttastofa útvarpsins spyrji fulltrúa Icelandair hvað hann hafi eiginlega meint með ummælum sínum um lækkun gjaldsins í fréttatíma hennar þann 13. nóvember sl.? Iceland Express hefur hins vegar í engu breytt “sköttum og gjöldum” í Kaupmannahafnarflugi eftir áramótin. Upphæðin er sú sama hvort sem farþegi ætlar að vera á ferðinni í desember eða janúar. Í raun þýðir þetta að Iceland Express fær 450 kr. meira í tekjur af hverjum farmiða eftir áramótin, vegna þess að félagið þarf þá ekki lengur að skila þessari upphæð til danskra stjórnvalda. Það er deginum ljósara að í þessum efnum er ekki um samstillar aðgerðir að ræða hjá flugfélögunum tveimur. Það eru töluverðir peningar sem hér um ræðir. Ef við gefum okkur að Iceland Express flytji 70 þúsund farþega til Kaupmannahafnar á næsta ári, þá fær félagið rúmlega 30 millj. kr. í aukatekjur af því að halda áfram að innheimta skatt sem ekki er lengur til.
Já, það má lengi seilast í vasa neytandans.