Eitt tilboð í byggingu Ölfusárbrúar
Tilboð í samkeppnisútboði vegna hönnunar og byggingar brúar yfir Ölfusá voru opnuð í vikunni. Eitt tilboð barst í verkið frá ÞG verktökum ehf. Að því er kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Vegagerðin auglýsti alútboð vegna hönnunar og byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá á Evrópska efnahagssvæðinu þann 3. mars 2023. Um er að ræða samkeppnisútboð samkvæmt 36. gr. laga um opinber innkaup. Þann 18. apríl 2023 voru opnaðar umsóknir og bárust umsóknir frá fimm þátttakendum sem allir uppfylltu þau skilyrði sem sett voru í útboðsauglýsingunni og voru metnir hæfir. Þessir aðilar fengu send útboðsgögn vegna samkeppnisútboðsins í lok nóvember 2023.
ÞG verktakar ehf. voru þeir einu af þessum fimm aðilum sem skiluðu inn tilboði. Um er að ræða upphafstilboð. Vegagerðin fer yfir tilboðið og stefnt er að því að fara í samningsviðræður við ÞG verktaka. Að þeim loknum verður gefin upp upphæð endanlegs tilboðs.
Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja samningsviðræður í byrjun apríl og vonir standa til að lokatilboð geti legið fyrir í júní og undirritun verksamnings í júlí. Verktaki ber ábyrgð á endanlegri hönnun verksins, brúar, vega og gatnamóta, og hefst vinnan við hönnunina í kjölfar undirritunar verksamnings. Forhönnun liggur fyrir sem þýðir að meginlínur hafa verið dregnar í útliti brúarinnar og legu vega. Undirbúningur á verkstað gæti hafist á þessu ári en áætlað er að brúin verði opnuð fyrir umferð haustið 2027.
Um verkið
Verkið snýst um færslu Hringvegar (1) út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Meðal helstu verkþátta eru nýbygging 3,7 km Hringvegar, bygging nýrrar 330 m langrar stagbrúar yfir Ölfusá og um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Gera þarf ný vegamót við Hringveg austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Einnig er gert ráð fyrir lögnum veitufyrirtækja.
Markmiðið með framkvæmdunum er að auka umferðarrýmd, aðskilja akstursstefnur og bæta umferðaröryggi.
Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 m breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum aksturstefnum ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum.
Gert er ráð fyrir steyptum endastöplum, brúargólfi með stálbitum og steyptu gólfi og turni úr stáli. Við forhönnun brúarinnar var miðað við aðstæður á svæðinu þar sem búast má við bæði jarðskjálftum og flóðum. Í brúnni er gert ráð fyrir jarðskjálftaeinangrun og forspenntum bergfestum í undirstöðum turnsins.
Helsta breytingin sem verður við þessa framkvæmd er að Hringvegur (1) styttist um 1,2 km og ferðatími styttist að lágmarki um fjórar til fimm mínútur. Einnig mun greiðast úr þeim umferðarteppum sem oft hafa skapast við gömlu Ölfusárbrúna en gert er ráð fyrir að umferð þyngri ökutækja verði ekki leyfð á gömlu brúnni þegar sú nýja hefur verið tekin í notkun að því fram kemur í tilkynningunni frá Vegagerðinni.