Ekki allt klappað og klárt hjá Smurstöðinni Klöpp í verðkönnun á umfelgun
FÍB birti þann 16. október verðkönnun á umfelgun hjá 35 dekkjaverkstæðum víða um land.
Núna í morgun hafði félagsmaður samband við skrifstofu FÍB og sagði að uppgefið verð í verðkönnuninni hjá Smurstöðinni Klöpp væri rangt. Hann hefði farið með bílinn sinn, jeppling á 18" dekkjum, í umfelgun og verið rukkaður um 18.250 krónur en ekki 15.850 krónur líkt og gefið var upp í verðkönnun FÍB. Um er að ræða 15% verðhækkun.
Starfsmaður FÍB hafði samband við Klöppog fékk þá skýringu að verð á heimasíðunni væri eldra verð sem láðst hefði að skipta út á netinu.
Þetta er að mati FÍB ámælisverð vinnubrögð af hálfu Smurstöðvarinnar Klappar. Uppgefin verð í verðkönnuninni höfðu áhrif á félagsmann FÍB og efalítið fleiri og virkuðu sem viðskiptavaki. FÍB kom þessum ábendingum á framfæri við Klöpp um síma og kom þessum rangfærslum einnig á framfæri við Neytendastofu.
Eftir að FÍB hafði samband við Klöpp var verðlistanum breytt á heimasíðu fyrirtækisins og búið er að setja ný verð inn í verðkönnun FÍB. FÍB ítrekar að verð á heimasíðu er sama og uppgefið verð á þjónustu eða vöru í afgreiðslu fyrirtækis.
Eldra verð | Nýtt verð | ||
16" | 10.750 | 12.360 | 15,0% |
18" | 15.850 | 18.250 | 15,1% |