Ekki bara íhlutir í Saab
Fyrrum dótturfyrirtæki Saab í Svíþjóð; Saab Parts sem framleiddi íhluti og varahluti í Saab bíla hefur nú breytt um nafn og heitir síðan í gær Orio. Orio á ekki lengur eingöngu að framleiða varahluti í Saab bíla heldur líka í bíla frá framleiðendum eins og Volvo, Ford og VW.
Dagens Industri í Svíþjóð greinir frá þessu og hefur eftir forstjóranum að ætlunin sé að bjóða upp á bæði góðar vörur og gott verð, bæði til bílaframleiðenda og eins fyrir eftirmarkaðinn (varahlutaverslanir og verkstæði o.s.frv.) En DI getur þess líka að ekkert sé víst að Orio takist að lifa af glerharða samkeppnina sem ríkir í þessum geira.
Það var árið 2010 þegar Saab var komið að fótum fram að sænska ríkið reyndi að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti, m.a. með því að útvega Saab 2,2 milljarða SEK lán frá Norræna fjárfestingabankanum. Lánið var tryggt að stærstum hluta með veði í Saab Parts og þegar Saab fór á hausinn eignaðist ríkið Saab Parts.
DI telur því að nafnbreytingin í gær og útvíkkun framleiðslunnar til annarra bíltegunda en Saab sé í raun tilraun ríkisins til að reyna að forða sænskum skattborgurum frá frekara tjóni. Saab bílar hafa ekki verið framleiddir í rúm þrjú ár og Saab Parts er því dæmt til glötunar ef ekkert er að gert, því að Saab flotinn í umferð fer eðli máls samkvæmt stöðugt minnkandi í ofanálag við það að hlutabréfaverð í Saab Parts hrundi þegar Saab varð gjaldþrota.