Ekki bensínfetillinn heldur hugbúnaðurinn?

Steve Wozniak, einn stofnenda Apple fullyrðir að það sé ekki bensínfetillinn sem er vandamálið hjá Toyota, heldur hugbúnaðurinn sem tölvur bílsins eru forritaðar með. „Þetta snýst ekki um pedala, heldur um hugbúnað, sem er ógnvænlegt,“ segir Wozniak.

Wozniak sagðist í nýlegu sjónvarpsviðtali eiga nýjan Prius sem undir vissum kringumstæðum, þegar skriðstillir bílsins er á, eigi til að gefa sér í botn og æða áfram. Hann kveðst geta hvenær sem er geta kallað fram þetta hættuástand í bílnum með ákveðnum aðgerðum. Hann kvaðst hafa kvartað ítrekað undan þessum ágalla bílsins við Toyota söluumboðið þar sem hann keypti bílinn og við Toyota í Bandaríkjunum og við NHTSA (bandarísku umferðaröryggisstofnunina) en án árangurs.

 Wozniaks á reyndar fjölda bíla og meðal þeirra er nýr Toyota Prius 2010. Viðtalið var tekið við hann eftir fyrirlestur sem hann hélt í  Sausalito Discovery safninu. Í viðtalinu segir hann m.a: „Ég á Toyota Prius árgerð 2010 en innköllunin nær ekki til hans. En þessi glænýi bíll er með inngjöf sem á til að hreinlega geggjast þegar ekið er með skriðstillinn á. Og sjálfur get ég kallað fram þennan ágalla aftur og aftur.

 Wozniak er einn af stofnendum Apple og yfirburðaþekking hans á bæði hugbúnaði og vélbúnaði í tölvuheiminum er vel þekkt. Orð hans hljóta því að vega þungt. En það eru fleiri en Wozniak sem hafa leitt getum að því að tölvuvillur eigi stærsta sök á vandamálunum hjá Toyota fremur en vélbúnaður. Í grein í Los Angeles Times er haft eftir tveimur fyrrverandi yfirmönnum hjá umferðaröryggisstofnuninni NHTSA, þeim Ricardo Martinez og Joan Claybrook að þeim sýnist sem vandinn snúist um rafræna villu eða „glitch".

 Á vefsíðu USA Today þar sem fjallað er um bíla og bílatengt efni er sömuleiðis verið að leiða getum að því að um rafræna villu sé að ræða og að bílar nútímans séu orðnir svo tölvuvæddir að hætta sé á að allskyns rafsegul- og útvarpsbylgjur geti ruglað bílana gersamlega í ríminu fyrirvaralaust. Vel sé því hægt að hugsa sér að bensíngjöfin í Toyotabílum sé að ruglast vegna slíks. Það geti verið að rafsegulbylgjur frá örbylgjuofnum eða loftnetum sem senda út útvarpsbylgjur séu að rugla tölvustýrð eldsneytiskerfi bílanna. Mjög erfitt sé að finna út nákvæmlega hverskonar eða hvaða bylgjur þetta geta verið sem valda því að skyndilega fer bíll í botngjöf og þýtur áfram eins og eldflaug.