Ekki bræða úr bílnum þínum!
Sú trú hefur fest sig í sessi meðal mjög margra bifreiðaeigenda að ekki lengur sé nauðsynlegt að fylgjast með stöðu smurolíunnar í vél bílsins. Bæði vélarnar og olíurnar séu orðnar svo góðar að miklu sjaldnar en áður þurfi að skipta um olíu, bílar séu alveg hættir að brenna olíunni og þess vegna sé alveg óhætt að keyra bara og keyra 10-15 þúsund kílómetra og fara svo með bílinn í smurning og olíuskipti. Því miður má oft rekja þessa grillu til sölumanna nýrra og nýlegra bíla sem segja kaupendunum þjóðsöguna um góðu vélarnar sem brenna ekki olíudropa.
Því miður er þetta ekki alveg svona. Ævar Friðriksson tæknilegur ráðghafi félagsmanna FÍB segir að afleiðing þessa sé sú að í seinni tíð sé það orðið allt of algengt að vélar í bílum bræði úr sér og eyðileggist og eigendur sitji uppi með gríðarlegt tjón sem skiptir hundruðum þúsunda króna, jafnvel milljónum. Þetta gerist vegna þess að of lítil olía var á bílvélinni. Fyrstu merkin eru oftast þau að viðvörunarljós kviknar í mælaborðinu í beygjum, þegar olían, sem of lítið er orðið af í vélinni, kastast til í olíupönnunni, olíudælan hættir að ná henni, grípur í tómt og smurþrýstingurinn fellur. Ef þetta gerist verða strax skemmdir á innviðum vélarinnar og á endanum bræðir hún úr sér og eyðileggst. Og það er sannarlega ekkert ánægjuefni að sitja kannski inni í vélarvana bíl í grenjandi hríð uppi á heiðum og fjallvegum, en eyðileggingin verður oftast þegar verst gegnir.
„Þær upplýsingar sem fólk hefur fengið hjá sölumönnum umboðanna um að óþarfi sé að fylgjast með olíustöðunni á bílvélinni, eru einfaldlega rangar,“ segir Ævar. Það verði að fylgjast með vélarolíunni á bílum. Rétt sé að ef notaðar eru góðar og dýrar olíur og olíusíur sé hægt að skipta sjaldnar um olíuna, en þess þá heldur þurfi að fylgjast með olíustöðunni á milli olíuskipta. Allar bílvélar brenni olíu meira eða minna og algengt sé að þær brenni hálfum lítra á hverja þúsund kílómetra. Á olíukvarðanum utan á vélinni eru merki sem sýna einskonar öryggismörk, þ.e. hve mikil olían má vera og hversu lítil. Ef staðan er komin niður í lágmarksmerkið verði að bæta olíu á vélina.
Hvað gerir vélarolían?
Of lítil olía á vélinni er mjög skaðlegt til lengri tíma. Olían bæði smyr vélina og kælir. Til að hún geti kælt vélina eins og hún á að gera, þarf að vera nóg af henni á vélinni. Þá liggur nægilegt magn af olíu í botnpönnunni til að kælast niður áður en hún fer aftur inn í smur-hringrásina. Ef of lítil olía er í pönnunni hækkar hitastig olíunnar og um leið rýrnar smurgildið að sama skapi.
Olían óhreinkast smám saman. Í hana kemur koks og sót sem hreinsast úr henni í olíusíunni. Ef olíumagnið í vélinni er of lítið bæði hitnar hún of mikið og sótast mun meira og hraðar og sían hefur ekki undan að hreinsa hana. Þetta segir Ævar líkjast því að reyna að þvo sokkana sína stöðugt úr sama vatninu. Á endanum verði þeir enn óhreinni við að reyna þvo þá upp úr sama vatninu aftur og aftur.
Þetta hefur þau áhrif á vélina að hún verður stöðugt óhreinni að innan og á endanum stíflast jafnvel smurgangar og þá eyðileggst vélin. En að keyra lengi með óhreina og of litla olíu á vélinni slítur henni miklu miklu hraðar þannig að endingin verður aðeins brot af því sem hún hefði orðið, hefði vélinni verið sinnt sómasamlega og skipt um olíu og olíusíu með eðlilegu millibili miðað við akstur og olístaðan aðgætt reglulega og bætt á eftir þörfum.
„Sölumenn umboða segja gjarnan að aldrei þurfi að opna húdd og mæla olíuna nema ef ljós kviknar. Það má segja að þetta sé aðeins rétt um þá bíla sem hafa olíuhæðarljós sem kviknar þegar olíustaðan verður of lág, en annars kolrangt og í mótsögn við það sem yfirleitt stendur í þjónustubókum bílanna. Mitt eindregna ráð er því það að opna húddið reglulega, t.d. mánaðarlega ef bíllinn er nýlegur en oftar ef um eldri bíl er að ræða, og draga upp olíukvarðann og bæta á olíu ef staðan er komin niður undir lágmarkið,“ segir Ævar Friðriksson.