Ekki frítt að leggja rafbíl í Reykjavík frá áramótum
Reykjavíkurborg hefur lagt af gjaldfrelsi visthæfra bifreiða í gjaldskyld stæði í allt að 90 mínútur. Reglurnar áttu við um raf- og vetnisbifreiðar. Umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar samþykkti tillögu þess efnis á fundi 19. október sl. Engar upplýsingar er að finna á heimasíðu Reykjavíkur um þessar breytingar. Samkvæmt heimasíðunni virðist þessi heimild vera í fullu gildi ennþá.
Borgin telur nógu marga bíla ganga fyrir rafmagni nú þannig að ekki sé þörf á ívilnunum lengur. Þessi niðufelling gjaldfrelsis hefur komið eigendum rafmagns- og vetnisbíla í opna skjöldu.
Engar upplýsingar er heldur að finna hvort eigendur þessara bíla eigi yfir höfði að fá sektir leggi þeir í bílastæði í góðri trú um gjaldfrelsi. Skortur á upplýsingum til neytenda er borgaryfirvöldum ekki til sóma.
Þess má geta að fyrstu reglur um svokallaðar visthæfar skífur tóku gildi 2007. Þá náðu þær ekki aðeins til rafmagns- og vetnisbíla heldur einnig bensínbíla svo fremi sem þeir losuðu minna en 120 g. af koltvísýringi á ekinn kílómetra.
Reglurnar hafa síðar verið hertar nokkrum sinnum og hafa síðustu ár aðeins náð til bíla sem eru minni en fimm metrar á lengd og ganga annaðhvort eingöngu fyrir rafmagni eða vetni.
Eigendur slíkra bíla hafa getað fengið klukkuskífur hjá borginni, sem þeir stilla þegar lagt er í stæði og veitti þeim rétt til að leggja ókeypis í gjaldskyld stæði í allt að 90 mínútur allt þar til nú.