Ekki meira ókeypis rafmagn
Fram að þessu hefur rafmagnið á hraðhleðslustöðvum Tesla verið ókeypis. Alveg ókeypis verður það ekki lengur frá og með nýju ári framundan. Þá fellur hið gamla auglýsingaslagorð Tesla, ,,Alltaf ókeypis” niður og Tesla-eigendur verða að greiða fyrir orkuna á bíla sína.
Fyrir þessari breytingu eru einkum tvær ástæður: Tesla hyggst víkka út og efla hraðhleðslustöðvanet sitt og það kostar peninga. Hin er sú að viðhorf hins almenna Tesla-bíleiganda til ókeypis raforku hefur valdið vandræðum. Eigendurnir hafa nefnilega litið svo á að þar sem þeim hafi verið lofað ókeypis straumi sé ekki ástæða til þess að vera að hlaða bílana heimavið yfir nóttina heldur einvörðungu á hraðhleðslustöðvunum. Af hálfu Tesla var það aldrei meiningin. Ókeypis tilboðið snerist um það að eigendur styngju bílum sínum í samband heimavið og geymarnir væru fullhlaðnir að morgni til að mæta hinni daglegu akstursþörf innan heimasvæðis. Ef þeir síðan legðu upp í lengri ferðalög myndi hraðhleðslustöðvanetið gera þeim það mögulegt.
Tesla reyndi að vinda ofan af þessu viðhorfi viðskiptavina sinna með auglýsingaherferð sem hvatti þá til að hlaða bílana heima sem mest. Nú tekur Tesla næsta skref. Það er að alveg frí hraðhleðsla verður ekki lengur innifalin í kaupverði nýrra bíla heldur verða 400 kílóWattstundir á ári ókeypis fyrir bíla sem pantaðir verða fyrir 1. janúar 2017 og afgreiddir fyrir 1. apríl 2017.