Eldar í ódýrasta bíl veraldar

Tata Nano, indverski smábíllinn sem mun vera ódýrasti  nýi bíllinn í veröldinni er kominn undir smásjá vegna eldhættu. Í gær, miðvikudag kom upp eldur í slíkum bíl þegar verið var að aka honum til söluumboðs. Þetta er að sögn fréttar Reuters í annað sinn sem eldur kemur upp í glænýjum Tata Nano á þessu ári.

Talsmaður Tata segir við Reuters að málið sé í rannsókn en menn þykist hafa vissu fyrir því að ekki sé þetta vegna hönnunargalla. Bíllinn uppfylli allar öryggiskröfur sem gerðar séu til bíla í Indlandi. Þær kröfur eru mun vægari en gerðar eru til bíla í Evrópu.

http://www.fib.is/myndir/Tata-nano-interior.jpg
Tata Nano. Allt með einfaldasta móti.

Í síðasta mánuði kviknaði í glænýjum Nano í borginni  Mumbai, örfáum mínútum eftir að kaupandi hafði fengið bílinn afhentan. Á síðasta ári kom svo upp eldur í nokkrum Nano bílum. Þá sögðu talsmenn tata Motors að ástæðan hefði verið gallaðir gangsetningarrofar og hefði þeim verið skipt út og samið við annan framleiðanda slíkra rofa.

Tata Nano var frumsýndur á alþjóðlegu bílasýningunni í Nýju Dehli árið 2008 þar sem hann vakti mikla athygli enda verðið með ólíkindum lágt á bílnum. Hann kom svo á almennan markað í heimalandinu Indlandi í júlímánuði í fyrra og nú eru rúmlega 30 þúsund Nano bílar komnir í umferð á indverskum vegum.

Tata Motors hefur látið uppskátt um fyrirætlanir um að bjóða bensínknúna Tata Nano bíla á Evrópskum bílamarkaði á næsta ári og á Bandaríkjamarkaði innan næstu þriggja ára.