Eldsneytið hækkar á Íslandi þegar heimsmarkaðsverð lækkar
Hráolía lækkaði í gær um meir en þrjá Bandaríkjadali á fatið á mörkuðum í Norður Evrópu. Unnar olíuvörur lækkuðu einnig; bensín um 30 Bandaríkjadali tonnið og dísilolían um 28 dollara tonnið. Eftir lækkunina kostaði bensíntonnið 1.010 dollara og tonnið af dísilolínni 1.147 dollara.
Hér á Íslandi var hins vegar aðra sögu að segja: Skeljungur hækkaði í gærmorgun tímabundið bensín og dísilolíu um 2 krónur á lítra og gaf þá skýringu á h´kkuninni að hún væri vegna óhagstæðrar gengisþróunnar. Fljótlega var þessi hækkun þó afturkölluð enda styrktist gengið nokkuð í gær. Uppreiknað í íslenskar krónur á lítra þá lækkaði bensín um 3,30 krónur og dísilolía um 3,60 krónur á Rotterdam-markaði í gær. Ekkert íslenskt olíufélag hefur þrátt fyrir þessar lækkanir tilkynnt um lækkun í dag.
Í ljósi umræðu um álagningu er fróðlegt að bera saman meðal kostnaðarverð og útsöluverð á lítra af bílaeldsneyti hér á landi það sem af er júlí samanborið við verð í júní. Heimsmarkaðsverð á bensíni í júní var 67,05 krónur á lítra en það sem af er júlí er verðið 65,80 krónur á lítra.
Meðal sjálfsafgreiðsluverð á þjónustustöð á bensíni var í júní 170,80 krónur á lítra en hefur hækkað í upp í 174,25 krónur á lítra júlí, þrátt fyrir lægra heimsmarkaðsverð. Hvernig má það vera? Og hvernig réttlæta forsvarsmenn olíufélaganna að 1,25 króna lækkun á lítra skili sér til íslenskra neytenda sem 3,45 krónur í hækkun? Hingað til hafa þeir fátt sagt um það annað en að FÍB sé að fara með vitleysu. Það eru heldur haldlítil rök.
Dísilolían lækkaði um 0,40 krónur á lítra í júlí samanborið við júní. En þrátt fyrir það lækkaði útsöluverð íslensku olíufélaganna ekki, heldur gagnstætt öllum skynsemisrökum hækkaði um hvorki meira né minna en um 4,75 krónur á lítra. Sambærilega þróun sjáum við ekki á þeim mörkuðum sem við berum okkur saman við í Norður Evrópu. Íslensku olíufélögin skulda augljóslega neytendum skýringar á þessu.
Á grafinu hér á eftir má sjá verðþróun á heimsmarkaði og útsöluverðs á Íslandi og breytingar á álagningu íslensku olíufélaganna frá því í ársbyrjun 2007 til þessa dags. Á myndinni sést glöggt hversu mikið olíufélögin hafa verið að auka álagningu sína í sumar.