Eldsneytið komið niður í 208,80-209,80
Í dag kostar lítrinn af bæði bensíni og dísilolíu í sjálfsafgreiðslu hjá almennu olíufélögunum kr. 209,80. Og hjá sjálfsafgreiðslufélögunum er lítrinn um eða rétt yfir einni krónu ódýrari.
Nú eftir áramótin hafa verið blikur á lofti. Heimsmarkaðsverð hefur farið hækkandi auk þess sem verulegar skattahækkanir tóku gildi upp úr áramótum. Hæst varð verðið í kring um 26. janúar. Þá fór það upp í 217,90 í sjálfsafgreiðslu á almennu bensínstöðvunum og í 217,10 hjá sjálfsafgreiðslufélögunum. Það verð stóð þó ekki lengi því að eitt af öðru hófu félögin að lækka og allt fram til gærdagsins hefur verðið verið að síga niður á við, mismikið uns svo var komið í gær að lítrinn af bensíni og dísilolíu í sjálfsafgreiðslu var orðinn kr. 209,80 og yfirleitt 208,80 hjá sjálfsafgreiðslufélögunum.
Það er ljóst af þróuninni síðustu daga að ákveðin verðsamkeppni er í gangi milli olíufélaganna því að lækkanirnar verða tæpast raktar til lækkana á heimsmarkaði né hringls í gengi krónunnar gagnvart dollar. Þvert á móti hefur heimsmarkaðsverð farið hækkandi sem rakið er til óróans í N. Afríku og Egyptalandi þótt segja megi að það sé minna en vænta hefði mátt. Sérstaklega dísilolía hefur síðustu dagana verið að hækka á heimsmarkaði og hefur sjaldan áður verið jafn dýr. Það má rekja til vetrarkulda bæði vestan- og austanhafs og vaxandi eftirspurnar af þeim sökum.
En hver er þá ástæða lækkana hér? Umferð og þar með eldsneytiskaup hafa dregist umtalsvert saman það sem af er ári, ekki síst eftir stóru hækkunina í janúar sem fyrr er nefnd. Svo virðist því sem olíufélögin séu að bregðast við með því að lækka verðið og freista þess að auka með því markaðshlutdeild sína. Með lækkununum til neytenda eru þau þannig að lækka álagningu sína. Semsé – lögmál markaðar og samkeppni eru að virka og vonandi virka þau sem lengst og best.