Eldsneytið lækkaði aftur
Olíufélögin að Skeljungi undanteknu lækkuðu í gær og í morgun verð á eldsneyti um eina til tvær krónur. Vera kann að frétt okkar hér á FÍB vefnum í gær um hækkandi álagningu félaganna hafi þar haft einhver áhrif. Nú í morgun kostaði lítrinn af bæði bensíni og dísilolíu þar sem verðið var lægst (hjá Orkunni) 239,50 krónur. Það var tíu aurum hærra hjá Atlantsolíu og ÓB.
Eldsneytisnefnd ríkisstjórnar sem hefur undanfarnar vikur verið að velta fyrir sér eldsneytisverðinu og skýlausri kröfu frá FÍB, atvinnulífinu og almenningi um lækkun eldsneytisskatta, er enn að velta málinu fyrir sér og kannski ekki að furða þegar sjálfur fjármálaráðherrann segist ítrekað ekki sjá nokkra ástæðu til þess að lækka þessa skattbyrði. Þessi nefnd, eða starfshópur, eins og hún kallast, er þannig milli steins og sleggju.
Á meðfylgjandi grafi má sjá hvernig skattbyrðin hefur verið að aukast í misstórum stökkum jafnt og þétt frá 2005 til dagsins í dag, uppreiknað til núvirðis miðað við vísitölu neysluverðs. Sömuleiðis sést þróun álagningar. Gröfin skýra sig sjálf.