Eldsneytisleysi getur valdið skaða
Rannsókn sem ökuskóli bílaklúbbsins RAC á Bretlandseyjum gerði í Rathmines á Írlandi sýnir að sá ávani sumra ökumanna að keyra út eldsneytisgeyminn (láta geyminn næstum eða alveg tæmast áður en fyllt er á), getur valdið leiðinlegum og dýrum bilunum í bílnum.
Sá sem alltaf bíður með að fylla á eldsneytisgeyminn þar til aðvörunarljósið er búið að lýsa um stund á ekki bara á hættu að verða skyndilega stopp vegna þess að geymirinn er tómur, heldur líka það að þurfa fyrr en ella að láta gera við bílinn fyrir tugi þúsunda vegna þess að innsprautunarkerfið, ekki sýst úðunarspíssarnir eru orðnir óhreinir eða eldsneytisdælan skemmist eða eyðileggst.
Rannsókn RAC leiðir í ljós að um fjórðungur írskra ökumanna, að langmestu leyti karlar, lætur það henda sig einu sinni á ári að keyra tankinn næstum eða alveg út. Um þriðjungur þeirra viðurkenndi að keyra stundum „umtalsverða vegalengd“ eftir að viðvörunarljósið um að tankurinn sé að verða tómur byrjar að loga.
En af hverju er það svona óhollt fyrir bílinn að keyra á síðustu dropunum í tanknum? Skýringin á þvi er sú að í mörgum bílum, sérstaklega þeim nýrri, er einskonar varatankur. Úr bensíntælunni koma tvö rör niður í tankinn og nær annað þeirra niður í botninn þar sem hann er lægstur, hitt nær ekki jafn langt niður. Dælan sýgur upp eldsneytið um styttra rörið þar til svo lítið er orðið á tanknum að það nær ekki meiru. Þá kviknar viðvörunarljósið en jafnframt skiptir dælan yfir á styttra rörið. En eldsneytið er ekki alltaf tandurhreint og með tímanum sest bæði grugg og vatn niður á botn tanksins og hættan er sú að þetta berist inn í eldsneytisdæluna og jafnvel inn í sjálft innsprautunarkerfið og þá er voðinn vís.