Samkeppniseftirlitið segir eldsneytisverð hátt í alþjóðlegum og evrópskum samanburði
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að eldsneytisverð gæti verið lægra hér ef samkeppnin væri meiri. Verðið sé hátt í alþjóðlegum og evrópskum samanburði þegar opinber gjöld hafa verið dregin frá. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnar Pál á ruv.is.
FÍB gerði í vikunni athugasemdir við ummæli forstjóra Skeljungs þar sem félagið undrast hvernig Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, reynir að afvegleiða umræðu um óeðlilega hátt bensínverð hér á landi með þeim ummælum að hér á landi séu ekki reknar olíuhreinsistöðvar. Því sé ekki rétt að miða útsöluverð á eldsneyti við verðsveiflur á heimsmarkaðsverði hráolíu. Þessu hélt Þórður fram í viðtali við RÚV þann 10. apríl.
Þessi ummæli eru með ólíkindum. Forstjóri Skeljungs veit - eða ætti að vita í ljósi þess hvar hann starfar - að sala eldsneytis miðast á hverjum tíma við heimsmarkaðsverð á unninni olíu (bensín, dísilolía) sem sveiflast í samræmi við heimsmarkaðsverð á hráolíu. Staðsetning olíuhreinsistöðva skiptir þar engu máli.
„Athuganir okkar sýna að eldsneytisverð hér á landi þegar opinberu gjöldin hafa verið tekin frá eru há í alþjóðlegum og evrópskum samanburði. Og athuganir okkar sýna líka skýrt að þegar nýir aðilar koma inn á markaðinn og hefja samkeppni, þá skiptir það mjög miklu máli og örvar samkeppnina og skýrasta dæmið um það er þegar Costco hóf hérna sölu á eldsneyti. Það hefur skipt máli fyrir íslenskan almenning,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í viðtalinu við RÚV. Brýnt sé að draga úr aðgangshindrunum og efla virka samkeppni.
Páll Gunnar er spurður: Þannig að þessi verðlagning er ekki endilega sú lægsta sem væri hægt að hafa?
„Það er augljóst að ef samkeppnin verður ennþá virkari þá mun það skila betri útkomu fyrir almenning,“ segir Páll.
Þegar þróun álagningar á eldsneyti er skoðuð fyrir landið allt og svo þegar þróun álagningar á Akureyri er skoðuð sést að verulega dró úr álagningu olíufélaganna þegar Atlantsolía hóf að selja ódýrara eldsneyti.
Öll olíufélögin kaupa eldsneyti af einu og sama norska fyrirtækinu Equinor, sem forstjóri Skeljungs segir að hafi ansi gott tangarhald á Íslandi.
Stríðir þetta ekki gegn samkeppnislögum?
„Ja, nú er það þannig að eldsneytisfyrirtæki á Íslandi hafa samningsfrelsi um hvert þau leita eftir eldsneyti til innkaupa og endursölu hér. Innlendu fyrirtækjunum ber auðvitað að leita bestu kjara á hverjum tíma.“
Páll Gunnar segir að ef olíufélögin telji vera samkeppnishindranir í innkaupum geti þau sent ábendingu til Samkeppniseftirlitsins.
Annað sem hamlar lækkun eldsneytisverðs að sögn forstjóra Skeljungs er að félögin þurfi að kaupa hvert í sínu lagi. Páll Gunnar segir að undanþága sé í lögum við banni á samstarfi keppinauta ef það leiðir til hagsbóta fyrir neytendur.