Eldsneytisverð lækkar lítilega hér á landi
N1 lækkaði um kl. 10:00 í morgun algengasta lítraverðið á bensíni um 3 krónur eða í 213,90 krónur. N1 lækkaði einnig ódýrasta verðið á stöðinni við Skógarlind í Kópavogi niður í 187 krónur. Dísilolíuverðið lækkaði á sama tíma hjá N1 um tvær krónur á lítra. Algengasta verðið er 212,40 krónur en ódýrast við Skógarlind, 186 krónur á lítra. Það munar því 26.90 krónum á algengasta bensínverðinu og 26,40 krónum á algengasta dísilverðinu hjá N1 og besta verðinu sem félagið býður viðskiptavinum sínum.
Orkan og Atlantsolía hafa einnig lækkað verðið á ódýrustu stöðvum sínum á öxlinum um Costco. Núna kostar bensínlítrinn hjá Orkunni við Dalveg í Kópavogi og við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði 184,80 krónur og dísillítrinn 184,30 krónur. Atlantsolía býður ódýrasta verðið við Kaplakrika í Hafnarfirði og við Sprengisand á horni Bústaðavegar og Reykjanesbrautar í Reykjavík en þar er bensínlítrinn á 184,80 krónur og dísillinn á 184,40 krónur.
Algengasta bensínverðið hjá Orkunni sem auglýsir ,,ódýrasta verðið í öllum landshlutum og ódýrasta eldsneyti landsins …”er dýrara en algengasta verðið hjá N1. Munurinn á algengasta og lægsta verði Orkunnar á bensíni er 30 krónur á lítra og 27 krónur á dísillítra.
Eftir sem áður er ódýrasta eldsneytið á Íslandi hjá Costco eða 180,90 fyrir lítra af bensíni og 179,90 fyrir dísilolíu. Það vekur athygli að Costco hefur ekki verðbreytt hjá sér síðan 19. mars sl. eða í ríflega mánuð. Costco hefur lækkað bensínlítrann hjá sér um 17 krónur frá lokum febrúar en N1 algengasta bensínverðið um 23 krónur á sama tíma.