Eldsvoðar í rafbílum alvarlegri en í brunahreyfilsbílum
-Framleiðendurnir hafa ekki á viðunandi hátt gengist við og uppfyllt skyldur sínar varðandi brunahættu í rafbílunum, hvernig bregðast skuli við ef eldur kviknar og hvaða hættur geti leynst eftir að eldur hefur verið slökktur, segir Peter Bachmeier formaður öryggisnefndar samtaka þýskra slökkviliðsmanna við tímaritið Der Spiegel.
Eldar sem kvikna í rafbílum eru ólíkir þeim sem verða í bensín- og dísilbílum að því leyti að þeir loga miklu lengur og erfiðara er að slökkva þá og slökkvistarfið krefst miklu meiri aðgæslu og varúðar. Að slökkva eld í brunahreyfilsbíl krefst að meðaltali um 500 lítra af vatni meðan rafbílaeldar krefjast að meðaltali 10 þúsund lítra vatns. Ennfremur þarf að vakta rafbílana í minnst 72 klst. eftir að eldurinn hefur verið slökktur.
Bachmeier segir að almennt séð krefjist slökkvistarf við rafbíla svipaðra aðferða og við bruna í efnaiðnaði. Það sé vegna flókinnar efnasamsetningar og eðlis rafhlaðanna. Þegar bruni í rafbíl sé afstaðinn ætti það að vera sjálfsögð skylda framleiðandans að yfirtaka flakið og fjarlægja það af brunastað.