Eldur í fólksflutningabílum
Fyrir nokkrum dögum kom upp eldur aftur í vélarrúmi stórs fólksflutningabíls sem staddur var við Stóru Tjarnir í Ljósavatnsskarði. Eldurinn breiddist frá vélarrúminu um nánast allan bílinn og er hann talinn ónýtur. Engan sakaði í þessum eldsvoða enda voru engir farþegar í bílnum þegar eldurinn kom upp.
Ekki mörgum dögum áður, aðfararnótt 28. júní, kom upp eldur í kyrrstæðum fólksflutningabíl við Vesturbraut í Keflavík. Bíllinn gereyðilagðist í brunanum en engan sakaði heldur. Þá greindu fjölmiðlar nýlega frá því að afturhjól hefði losnað undan rútubíl á fullri ferð úti á vegi
Þessi nýlegu dæmi og nokkur eldri atvik sem upp hafa komið og sum þeirra með hörmulegum afleiðingum, vekja óneitanlega upp hugrenningar og spurningar um ástand íslenska rútuflotans. Er viðhaldi sumra þessara bíla ábótavant og hversu gamlir eru þeir? Og hvað með þau jarðgöng sem þegar eru í notkun í vegakerfinu? Hvað gæti gerst ef eldur verður laus í rútu fullri af farþegum inni í jarðgöngum? Vitað er að öryggismálin í Hvalfjarðargöngum hafa nýlega verið verið tekin rækilega í gegn, eldvarnir eru þar samkvæmt ítrustu kröfum og öryggisvarsla er þar allan sólarhringinn. En hvað með önnur jarðgöng gömul og ný og fyrirhuguð?
Það er vitað að rútubílaflotinn í landinu er á ýmsum aldri. Endurnýjun hefur verið eðlileg hjá stærstu og faglegustu fyrirtækjunum en hvað verður um gömlu slitnu rúturnar þeirra? Eru þær áfram í rekstri aðila sem ráða illa við að halda þeim eins vel við og nauðsynlegt hlýtur að teljast?