Ellefta hlaðan á þessu ári tekin í notkun í Hveragerði
Orka náttúrunnar tók í gær í notkun nýja hlöðu fyrir rafbílaeigendur við þjónustustöð Skeljungs í Hveragerði. Hún er búin hvort tveggja hraðhleðslu og hefðbundinni. Hlöður ON eru nú orðnar 25 talsins, í öllum landsfjórðungum og hringvegurinn verður orðinn vel fær rafmagnsbílum fyrir páska 2018.
Fyrr í vikunni tók Orka náttúrunnar í notkun tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur, á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1, sem er miðsvæðis í bænum og liggur vel við samgöngum í landshlutanum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðsla.
Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum frá árinu 2014. Þá voru fyrstu hlöður fyrirtækisins með hraðhleðslum opnaðar. Þeim hefur fjölgað síðan og aldrei eins ört og nú í ár.
Hlaðan í Hveragerði stendur við þjónustustöð Skeljungs við Austurmörk. Þar fyllti Stella Hrönn Jóhannsdóttir rafbílaeigandi bílinn sinn orku. Viðstödd voru feðgarnir Vilhjálmur og Vilhjálmur Roe, sem reka Skeljungsstöðina í Hveragerði, auk Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, forstöðumanns einstaklingsmarkaða ON og sonar hennar Einars Birgis.
Hringurinn opinn fyrir páska
Orka náttúrunnar hefur einsett sér að opna allt landið fyrir umferð rafbíla og setja upp hlöður meðfram hringveginum. Fyrr í mánuðinum opnaði fyrirtækið hlöður í Freysnesi í Öræfum, við Jökulsárlón, á Djúpavogi og á Egilsstöðum.
Þetta net mun þéttast jafnt og þétt næstu vikur og mánuði með því að hlöður verða opnaðar á Stöðvarfirði, í Nesjum við Hornafjörð, við Mývatn og á hálendinu milli Norður- og Austurlands. Áform ON má sjá á meðfylgjandi uppdrætti og stefnt er að því að opna allar þær hlöður sem reistar verða við hringveginn fyrir páska.