Ellibelgir kaupa unglingabílana
Bílarnir Kia Soul og Fiat 500 og margir fleiri bílar áttu sérstaklega að höfða til ungra bílakaupenda í Bandaríkjunum. Af hálfu framleiðenda bílanna var lagt út í dýrar og viðamiklar auglýsingaherferðir og bílarnir seldust bærilega. En kaupendurnir eru bara ekki þeir yngri, heldur eldra fólk, gjarnan eftirlaunaþegar. Endurtekin dæmi af þessu tagi vekja upp spurningar um hvort markaðs- og auglýsingafólkið sé yfirleitt í tengslum við veruleikann.
Þegar Toyota hóf að markaðssetja bílmerkið Scion í Bandaríkjunum var ætlunin sú að höfða til yngra fólks sem langaði lítið í venjulegar Toyotur eins og Corolla og Camry. Sú markaðssetning fór á þann sama veg og nú hefur gerst með Kia Soul, Fiat 500, Chevrolet Sonic og marga fleiri: Það eru þeir eldri sem kaupa þá, ekki þeir yngri.
Wall Street Journal hefur fjallað um þetta og rætt við eldri borgara sem keypt hafa ungdómsbíla. Sextugur karlmaður sem keypti sér Kia Soul sagði að það væri vegna þess hve auðvelt væri að umgangast bílinn og stíga inn í hann og út, sem hann hefði valið bílinn. 65 ára kona á eftirlaunum sagði ástæðuna fyrir því að hún fékk sér Scion xB þá, að bíllinn væri svo „unglegur“ en ekki svona dæmigerður ellibíll í útliti.
Bílavefurinn Edmunds.com segir að 42 prósent þeirra sem keypt hafa ungdómsbílana sé fólk sem komið er á eftirlaun eða nálægt eftirlaunaaldri. Einungis 12 prósent kaupendanna er á aldrinum 18-34 ára. Líklegar ástæður þessa séu m .a. að ungt fólk sækist eftir því að búa í miðjum stórborgum og þurfi því ekki mikið á bíl að halda. Þeir eldri búi gjarnan við góðan efnahag og eigi heimili sín í úthverfum.
Wall Street Journal greinir frá því að einungis 12 prósent þeirra Bandaríkjamanna sem keypt hafa Fiat 500 sé 34 ára og yngri. 37 prósent kaupendanna hins vegar eru 55 ára og eldri. Hið sérstæða við þetta er að allar auglýsingar um bílinn eru yfirfullar af ungu fólki og farsímum og lífsstíl ungs fólks. En þessar auglýsingar allar virðast fara fyrir ofan garð og neðan hjá hinum unga markhópi því að sölustjóri Fiat í Michigan segir við Wall Street Journal að þegar ungt fólk sé spurt hvort það þekki eitthvað til Fiat bíla er svarið nei. En sé eldra fólk spurt sé svarið já Ýmist eigi viðkomandi Fiatbíl eða þá einhver í kunningjahópnum.