Elon Musk greindur í nýrri bók

Bíla- og tækniblaðamaður að nafni Ashlee Vance hefur gefið út bók um þekktasta frumkvöðul heims þessi árin, Elon Musk, eiganda Tesla Motors og SpaceX geimferðafyrirtækisins. Höfundurinn virðist hafa fengið ágætan aðgang að Elon Musk sjálfum og hans helsta samstarfsfólki við ritun bókarinnar og lýsir ekki bara kostum heldur líka göllum og skuggahliðum hans.

Vera kann að erfiðleikar í uppvextinum hafi mótað Musk að einhverju leyti: Hann fæddist og óx upp í S. Afríku. Foreldrarnir skildu, hann ólst upp hjá föðurnum og varð fyrir hrottalegu einelti sem barn. Í bók Ashlee Vance er honum lýst sem óöruggum í nánum samskiptum við aðra, en það dylji hann með miklum stórmennskutilburðum og belgingi manns sem þykist vita allt betur en aðrir. Hann sé siðlaus í viðskiptum og komi fram við þá sem næstir honum standa af lítilsvirðingu og jafnvel illkvittni.

Margar frásagnir eru í bókinni af fyrirvaralausum og hrottalegum brottrekstrum tryggra samstarfsmanna og sambandsslitum hans og eigin- og sambýliskvenna sem fyrst fundu fyrir því að nærveru þeirra væri ekki lengur óskað á þann hátt að greiðslukortum þeirra hafði verið lokað. Í stuttu máli er þarna lýst manni sem svífst einskis og telur að hans eigin tilgangur helgi alltaf meðalið.

Titill bókarinnar, sem fæst á vefversluninni Amazon, er Elon Musk: Tesla, SpaceX and the Quest for a Fantastic Future.