Endurbótum lokið á Þingvallavegi
Nýr vegarkafli á Þingvallavegi var formlega opnaður í gær eftir miklar endurbætur í því skyni að auka umferðaröryggi samfara stóraukinni umferð um svæðið. Um er að ræða átta km vegarkafla frá þjónustumiðstöðinni og að tengingu við Vallaveg.
Við hönnun vegarins og framkvæmd endurbótanna var tekið tillit til hinnar viðkvæmu náttúru í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar opnuðu vegarkaflann formlega.
Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 2010 var umferðin 430 bílar um veginn á sólarhring samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring sem er 250 % aukning en Vegagerðin áætlar að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring.
Í ávarpi sínu sagði ráðherra ekki heiglum hent að leggja veg um Þingvelli, helgasta vígi lands og þjóðar. „Tímabært þótti orðið að breikka veginn og endurbæta til þess að auka umferðaröryggi,“ sagði Sigurður Ingi. „Framkvæmd endurbótanna var bundin ýmsum verndarákvæðum enda liggur vegurinn í þjóðgarðinum, en Þingvellir eru á Heimsminjaskrá UNESCO.“
Í frétt Vegagerðarinnar um veginn segir að framkvæmdin hafi verið flókin en að hún hafi verið gerð í sátt við umhverfið. „Mikilvægt var að raska sem minnstu við framkvæmdina og því var veginum lokað með öllu til að verktaki gæti unnið af gamla veginum sjálfum. Gróðurinn sem þurfti að fjarlægja var settur upp á veginn til geymslu meðan unnið var við breikkun vegarins. Síðan var gróðrinum komið fyrir í nýjum vegfláa. Þessi aðgerð var undirbúin vel í samstarfi við Landbúnaðarháskólann sem vann gróðurfarsskýrslu fyrir gróðurinn á svæðinu.“
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er heildarkostnaður verksins áætlaður 767 milljónir króna. Endanlegu uppgjöri verksins sé hins vegar ekki lokið en búast megi við auknum kostnaði sér í lagi vegna endurbóta á hjáleiðinni um Vallaveg.