Endurkjörinn formaður með öllum greiddum atkvæðum
,,Ég er þakklátur fyrir sterkan stuðning sem fram kom á landsþinginu eftir 15 ár í þessu embætti. Við erum með yfir 18 þúsund fjölskyldur sem félagsmenn svo okkar ábyrgð sem neytendafélag er mikil og af nægu að taka,“ segir Steinþór Jónsson, ný endurkjörinn formaður Félags Íslenskra Bifreiðaeiganda, FÍB.
Landsþing félagsins var haldið sl. föstudag á Hilton Nordica í Reykjavík og var góð þátttaka félagsmanna enda fyrirliggjandi kosningar um formann félagsins. Niðurstaða í formannskjöri var afgerandi en Ólafur Guðmundsson fyrrverandi varaformaður félagsins og núverandi varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins bauð sig fram gegn sitjandi formanni en og hafði ekki erindi sem erfiði. Steinþór Jónsson hlut 100 prósent atkvæða en Ólafur fékk ekkert atkvæði.
Steinþór segir að barátta fyrir neytendur sé sér efst í huga á þessum tímamótum og nefnir sem dæmi að bílatryggingar séu nálægt helmingi hærri hér á landi en á Norðurlöndunum.
Steinþór sagði í ræðu sinni á þinginu að það þurfi einfaldlega að taka tryggingagjöld hér á landi föstum tökum. Auka þurfi aðhald almennt varðandi eldsneytigjöld sem og skatta á bifreiðaeigendur. Það er verið að þrengja að bifreiðum m.a. með Borgarlínu sem við höfum ekkert á móti sem slíka en sættum okkur ekki við þrengingu frá því sem nú er. Þar af síður að fjármögnun Borgarlínu eða almenningssamgangna almennt sem komi fram í bifreiðasköttum.
,,Þá er rafbílavæðing mjög hröð og hugmyndir um skattlagningu rafbíla yfirvofandi svo nú er tími fyrir okkur að vera vakandi fyrir okkar félagsmenn. Við höfum öflugan framkvæmdarstjóra, Runólf Ólafsson, sterka samstæða stjórn sem ásamt starfsfólki skrifstofunnar mynda heild sem ég er stoltur að vera hluti af. Við saman ætlum að ná góðum árangri fyrir okkar félagsmenn. Ég skora á alla bifreiðaeigendur að kynna sér aðild að FÍB sem bæði margborgar sig og um leið styrkir fjöldinn málstaðinn,“ segir Steinþór Jónsson.
Nýkjörin stjórn FÍB er skipuð eftirtöldum einstaklingum: Steinþór Jónsson, formaður. Kristín Sigurðardóttir, Reykjavík, Ingigerður Karlsdóttir, Reykjavík, Viggó Helgi Viggósson, Reykjanesbæ, og Einar Bárðarson, Hafnarfirði. Í varastjórn sitja Ástríður Sigurðardóttir, Reykjanesbæ, Bogi Auðarson, Kópavogi, og Halldór Óli Kjartansson, Akureyri.
Mynd: Steinþór Jónsson, formaður FÍB, ásamt eiginkonu sinni Hildi Sigurðardóttir, á landsþingi FÍB, sem haldið var á Hilton Nordica í Reykjavík sl. föstudag.