Endurnýjun lífdaganna
Þeir sem eiga ennþá Tesla Roadster, fyrsta rafmagns-sportbílinn sem reis undir nafni eiga nú bjartari tíma í vændum því að ný og öflug uppfærsla rafgeyma og stýrikerfis í bílinn er væntanleg ef marka má orð Tesla forstjórans og –eigandans Elon Musk á samfélagsmiðlum.
Tveggja sæta sportbíllinn Tesla Roadster kom fram á sjónarsviðið árið 2008. Í raun er bíllinn Lotus Elise með rafmótor og líþíum-rafgeymum. Hann er bráðskemmtilegur í akstri og mjög viðbragðsfljótur, en drægið var að sönnu ekki mikið, sérstaklega ef stöðugt var verið að spyrna honum. Það sýndi sig vel í breska skemmtiþættinum Top Gear, en af þeirri sýningu urðu talsverð eftirmál þar sem Tesla-menn töldu að Jeremy Clarkson í Top Gear hefði haft rangt við.
En geymarnir í bílnum árið 2008 voru af fyrstu kynslóð líþíumgeyma og ekki gekk að reikna með meira drægi bílsins en 100-200 km í blönduðum akstri. Elon Musk lofar hins vegar því að með nýju geyma- og tækniuppfærslunni sem í boði verður, þá komist bíllinn yfir 600 km á hleðslunni. Hann tók skýrt fram að uppfærslan væri einungis fyrir Tesla Roadster sportbílinn.
Tesla Roadster var sem fyrr segir í grunnin Lotus Elise. Bílarnir voru keyptir án véla og gírkassa og flutti frá Bretlandi til Silicondals í Kaliforníu þar sem rafmótorarnir og –geymarnir voru settir í þá. Einungis 2.500 eintök voru byggð af Tesla Roadster á árunum 2008 til 2012. Flestir seldust þeir í Bandaríkjunum en margir til Evrópulanda, þeirra á meðal Noregs og Danmerkur.