Endurskoðun á vetrarþjónustu kynntar hjá Reykjavíkurborg
Tillögur stýrihóps um endurskoðun á vetrarþjónustu voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær. Hlutverk stýrihópsins var að greina hvar þörf er á breytingum til að stuðla að skilvirkari þjónustu og hagkvæmni í rekstri. Fram kemur að ljúka á snómokstri, að jafnaði, innan tveggja sólarhringa eftir að snjókomu lýkur.
Vetrarþjónusta Reykjavíkurborgar er í sífelldri endurskoðun og þróun en dæmi um nýleg umbótaverkefni er að frá 2020 hafa göngu- og hjólaleiðir verið í þjónustu um helgar og hálkueyðing stíga hefur verið með salti í stað söndunar með góðum árangri.
Tillögur hópsins eru sextán og þeim fylgir aðgerðalisti með 40 aðgerðum sem miðað er við að verði komnar til innleiðingar fyrir næsta vetur. Tækjum sem sinna húsagötum verði fjölgað svo hægt verði að klára hreinsun að jafnaði innan tveggja sólarhringa eftir að snjókomu lýkur og byrjað verði að hreinsa götur þegar snjódýpt er 10 sentimetrar, en ekki 15 eins og nú er.
Eftirlit verður eflt
Eftirlit er annars vegar eftirlit með færð á vegum og hins vegar með framkvæmd vetrarþjónustunnar. Fylgst verður með verklagi og framgangi vetrarþjónustu allan sólarhringinn og gerðar reglulegar úttektir á snjóhreinsun á vettvangi.
Ávinningur með öflugu eftirliti á ástandi vega felst í áreiðanlegra viðbragði við hálku og snjó á hvaða tíma sólahringsins sem er. Öflugra eftirlit með framkvæmdinni er bæði til þess fallið að athuga hvort snjóhreinsun sé sinnt eins og farið er fram á í útboðssamningum og tryggja samræmd vinnubrögð milli verktaka. Öll ökutæki sem sinna snjóhreinsun eru með ferilvöktunarbúnað.