Engan lausagang í London
Boris Johnson, hinn litríki borgarstjóri Lundúnaborgar er mikill umhverfissinni og hefur marg lýst vilja sínum til að gera London að höfuðborg rafbílanna. Nú vill hann innleiða sektir fyrir að láta bíla ganga lausagang. Þeir sem aka á bílum með start-stopp kerfi sem drepur á vélinni þegar stansað er en ræsir hana aftur um leið og stigið er á kúplinguna og sett í gír, eru auðvitað ekki í neinni sektarhættu. Allir hinir verða bara að muna að drepa á bílnum þegar stöðvað er á rauðu ljósi og ræsa aftur þegar gula ljósið kviknar. Annars geta þeir átt á hættu að verða sektaðir um 15 þúsund ísl. krónur.
London mældist umferðarþyngsta borg Evrópu árið 2011 þar sem bílaumferð er hægust. Það er því talið að sektir við lausagangi bílvéla geti dregið talsvert úr bílaútblæstri í borginni. Nýleg rannsókn sýnir nefnilega að ef drepið yrði á öllum bílum í London í einu í eina mínútu myndi það draga úr CO2 losun frá umferðinni um 100 milljón kíló. Margar gerðir nýjustu bíla eru með start-stopp kerfi. Kerfið kom fyrst fram í sparneytnum smábílum en nú fjölgar stórum bílum og lúxusbílum með búnaðinum – bílum eins og t.d. Lamborghini Aventador.