Engin ákvörðun hefur verið tekin
„Við fylgjumst auðvitað með viðbrögðum en ég minni hins vegar á að engar ákvarðanir hafa verið teknar. Það er langt þar til innheimta veggjalda kemur til framkvæmda, ef af henni verður,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í samtali við fréttavef Morgunblaðsins sem þar birtist fyrir stundu.
Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherra tjáir sig um vegatollamálið eftir að undirskriftasöfnun FÍB gegn hugmyndinni hófst síðdegis sl. mánudag. Þegar þessi orð eru rituð hafa rúmlega 35 þúsund manns mótmælt vegatollafyrirætlununum. Fyrirrennari Ögmundar sem ráðherra samgöngumála, Kristján Möller, hefur hins vegar verið ötull talsmaður vegatollamálsins og komið fram í fjölmiðlum sem forsvarsmaður þess og verið óþreytandi við að gagnrýna FÍB og talsmenn þess fyrir ófagleg vinnubrögð í málinu.
Ögmundur segir við fréttavef Morgunblaðsins að til að bregðast við þeim gagnrýnisröddum sem nú eru uppi muni hann á næstunni skipa þverpólitíska nefnd fulltrúa úr ýmsum áttum þar sem kostir og gallar vegtolla verða vegnir og metnir.
Frétt Morgunblaðsvefsins er hér. En af henni má ráða að engin formleg ákvörðun hafi verið tekin um vegatollainnheimtuna eins og ætla hefur mátt af málflutningi Kristjáns Möller fyrrverandi samgönguráðherra. Hann sagði í morgun í samtali við stjórnendur þáttarins Í býtið á Bylgjunni m.a. þetta: „Grundvallaratriðið er þetta þannig að þetta er ekki eitthvað prívat dæmi mitt. Þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda að fara í þetta......frumvarpið sem ég lagði fram var samþykkt með 43 eða 45 samhljóða atkvæðum. Það var enginn á móti. Það voru fulltrúar úr öllum flokkum sem samþykktu þessa leið...“
Af framansögðum orðum ráðherrans fyrrverandi mætti ætla að ákvörðun um vegatolla hafi verið tekin mótatkvæðalaust á alþingi. Það hlýtur að teljast frjálsleg túlkun á þeirri staðreynd að alþingi samþykkti einungis heimild til að stofna opinber hlutafélög til að annast framkvæmdir á vegunum út frá höfuðborgarsvæðinu og taka lán til þeirra og semja við verktaka. Svo virðist sem eftir sé að stofna þessi félög, skipa þeim stjórnir og ráða starfsfólk. Það er því spurning á hvers vegum hefur Kristján Möller þá verið að reyna að semja við lífeyrissjóði um framkvæmdalán og vexti af þeim og hvaða umboð hefur hann haft til að tala eins og hann sé með ráðherravald og að allt sé klappað og klárt með ákvarðanir um tollmúr og tollheimtu af umferð til og frá höfuðborg Íslands?
Hér er að finna viðtalið við Kristján Möller á Bylgjunni í morgun.