Engin eldhætta
Rannsókn bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA á rafgeymum Chevrolet Volt rafbílsins með tilliti til eldhættu er formlega lokið. Niðurstaðan er sú að eldhætta er ekkert meiri en í hvaða bíl öðrum sem er. Bíllinn er eins öruggur og verða má.
Eins og greint hefur verið frá hér á fréttavefnum varð mikið fréttafár í Bandaríkjunum þegar eldur kom upp í rafgeymum Chevrolet Volt bíls á geymslusvæði árekstursprófunarstöðvar, þrem vikum eftir að bíllinn hafði verið árekstursprófaður.
NHTSA tók Chevrolet Volt og aðra rafbíla þá til sérstakrar rannsóknar. Nú er henni lokið með tilkynningu um að engin ástæða sé til að halda að eldhætta sé til staðar í Voltinum, né öðrum rafbílum og síður en svo meiri en í hefðbundnum bensínbílum.
Fróðir menn um markaðsmál telja að þessi atvik öll hafi dregið úr áhuga almennings fyrir rafbílum og tíma getið tekið að vekja hann upp á ný. En allt um það þá hefur sala á Chevrolet valdið vonbrigðum með því að reynast miklu minni en vænst var og verður brunanum í fyrrnefndum klessubíl ekki einum kennt um það. Rebecca Lindland markaðsfræðingur segir við New York Times að þrátt fyrir mikla umfjöllun um Volt áður en hann kom á markað, þá hafi ekki tekist að kveikja almennan áhuga bílakaupenda. Það sé meginvandinn, en ekki bara þessi bruni sem varð í klessubílnum.