Engin þjóðarsátt í bílaeldsneytinu

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa-fram.jpg

Fyrr í dag hækkaði olíufélagið N1 og dótturfélag þess, EGO, eldsneytisverðið á stöðvum sínum. Bensínið hækkaði um tvær krónur hver lítri og dísilolían hækkaði um krónu lítrinn. Hjá N1 kostar bensílítrinn nú kr. 168,70 og dísilolían kostar kr. 184,60. Hjá EGO kostar bensínið nú 167,10 og dísilolían kr. 183,- Þegar þessi frétt var rituð höfðu hin olíufélölgin ekki fylgt N1 og hækkað hjá sér.

Ef fréttamenn fjölmiðla leita eftir skýringum á hækkuninni í dag hjá N1 munu forsvarsmenn fyrirtækisins án efa benda á að gengi íslenskrar krónu gagnvart Bandaríkjadal hafi veikst um á þriðja prósent nú í morgun, föstudaginn 8.8.08. og því hafi hækkunin verið nauðsynleg, þar sem heimsmarkaðsverð olíu sé reiknað í dollurum.

Gott og vel

En vonandi munu fréttamenn þá minna þá á að á sama tíma og fyrrnefnd veiking krónunnar varð, hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um rúmlega 1,5% það sem af er degi. Hækkunin í morgun hjá N1 og dótturfyritækinu EGO er því ekki réttlætanleg þrátt fyrir veikingu íslensku krónunnar.

FÍB hefur gagnrýnt olíufélögin fyrir það að skila ekki til neytenda lækkun á heimsmarkaði. Þeirri gagnrýni hafa talsmenn olíufélaganna ekki hirt um hingað til að svara með málefnalegum hætti heldur einungis með hótfyndni um þekkingarleysi hjá FÍB og skorti á upplýsingum, sem hvorttveggja er rangt.

Það stendur greinilega ekki á N1 að hækka bensín og dísilolíu um leið og gengið lækkar. Það sýnir hækkunin fyrr í dag skýrt. N1 hefur heldur ekki verið lengi að því að hækka verðið þegar heimsmarkaðsveriði steig.

N1 er hins vegar mun seinna til þegar heimsmarkaðsverð á olíu lækkar og/eða gengi krónunnar hækkar. Nú er svo komið að N1 skuldar sínum viðskiptavinum umtalsverða lækkun á verði eldsneytis í samræmi við lækkun heimsmarkaðsverðs:

Kostnaðarverð á hvern lítra af bensíni og dísilolíu er svipað nú því sem það var snemma í liðnum maí. Nýja verðið hjá N1 frá því í morgun er nærri 10 krónum hærra á hvern bensínlitra miðað við verðið eins og það var fyrir 3 mánuðum og dísillítrinn er hvorki meira né minna en um 18 krónum dýrari nú.

Það er greinilega tómt mál að tala um þjóðarsátt fyrir daufum eyrum olíukónganna hjá N1 - stærsta olíufélaginu á Íslandi. En spyrja má hvort þetta sé það viðskiptasiðferði sem stjórnendur fyrirtækisins vilja láta kenna sig við?

 Þeirra er valið.