Engin undankomuleið!
ADAC í Þýskalandi, systurfélag FÍB, hefur framkvæmt áreksturspróf þar sem vörubíll ekur aftan á röð fólksbíla. Prófið staðfestir það sem marga hefur lengi grunað – að það breytir litlu hvort fólksbílar sem lenda í árekstri við vörubíla eru fimm stjörnu bílar eða ekki. Á óvart kemur það helst að vörubíllinn þarf ekki að vera af stærstu og þyngstu gerð til að ógna lífi fólksins í fólksbílunum. Í tilraun ADAC var vörubíllinn einungis 5,5 tonn að heildarþyngd.
Þyngdarmunurinn á fólks- og vörubílum svo mikill að mestar líkur eru á að fólkið í fólksbílunum missi lífið í árekstrinum. Þegar vörubílstjórinn gerir mistök og keyrir aftan á aftasta bílinn í kyrrstæðri bílaröð á veginum, þá verða afleiðingarnar margfalt verri en ef annar fólksbíll ekur aftaná. Slík slys og ægilegar afleiðingar þeirra hafa vissulega sést á vegum allsstaðar í heiminum. ADAC hefur hins vegar orðið fyrst til að gera slíkt áreksturspróf í tækni- og rannsóknastöð sinni skammt frá Munchen í Þýskalandi. Tilgangurinn var auðvitað að skilgreina nákvæmlega hvað raunverulega gerist og undirstrika nauðsyn þess að allir vörubílar verði framvegis með búnaði sem „sér“ kyrrstæðan bíl framundan og hemlar vörubílnum í tæka tíð og forðar þannig slysi af þessu tagi.
Í myndbandinu hér að neðan segir tæknimaður ADAC að í þessum málum dugi engar málamiðlanir eða hálfkákslausnir eins og viðvörunarflautur, heldur aðeins búnaður sem grípur inn í akstur vörubílsins þegar ökumaðurinn bregst. Búnaður af þessu tagi er þegar þekktur í nýjum fólksbílum í hærri og hæstu verðflokkum, en framleiðendur vörubíla hafa hingað til vart eða ekki boðið upp á hann í nýjustu vörubílunum.
Áreksturspróf ADAC fór þannig fram að 5,5 tonna þungur vörubíllinn er látinn aka aftan á tvo kyrrstæða fólksbíla á 70 km hraða á klst. Afleiðingar árekstursins eru þær að báðir bílarnir fara í þvílíka klessu að enginn hefði sloppið lifandi úr hvorugum fólksbílnum. Fólksbílarnir, sem voru Renault Megane og Mitsubishi Lancer voru óþekkjanlegir eftir áreksturinn.