Enginn að gera neitt þrátt fyrir alvarleika málsins
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir Procar- málið afar víðfermt og þeir eru búnir að gangast við því sjálfir að hafa að minnsta kosti átt við 110 bíla. Síðan er þessi óvissa, hversu margir bílar eru hugsanlega þarna til viðbótar. Þessir bílar voru seldir og sumir voru með einhverja tugi þúsund kílómetra minni akstur á mæli þegar þeir voru seldir heldur en raunverulega var búið að aka þeim. Þetta var þess sem meðal annars kom fram í viðtali við Runólf Ólafsson í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi.
Í viðtalinu í gærkvöldi sagði Runólfur þessi svik margþátta. „Þegar það er verið að standa í svona, þá eru þetta margþátta svik. Það er verið að fá hærra endursöluverð fyrir bifreiðina, það er ákveðinn hvati ef þú ferð á markað og ætlar að kíkja eftir notuðum bílum, þá er einn helsti söluhvatinn: „Hvað er bíllinn ekinn?“ Síðan getur þetta líka haft áhrif á alla þjónustusögu bílsins. Er búið að huga að ýmsum þjónustuþáttum? Hvað með tímareim, og svo framvegis? Þannig að þú ert með mjög stóra óvissu varðandi stöðu og viðhald ökutækisins og þá erum við bara komin hreinlega að öryggismálum að auki, fyrir utan það fjárhagslega tjón sem fólk verður fyrir vegna þess að það er í rauninni að kaupa bifreið sem er miklu meira ekin en það taldi að það væri að kaupa.“
Auðvelt að skrúfa niður mæla
Runólfur vakti máls á svindlinu í pistli sínum í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins, þar sem hann gagnrýnir andvaraleysi stjórnvalda vegna þess. Procar er ennþá starfandi og aðspurður um hvernig það megi vera svarar hann: „Ég spyr að því sama, af því að það stendur nú í regluverkinu í sambandi við það að fá heimild til þess að leigja út bifreiðar, að fyrirtæki þurfi að sýna af sér þannig háttsemi að það sé ekki að brjóta gegn lögum og reglum. Standa að sínum málum í anda þess sem að góðir viðskiptahættir kveða á um. Sem er reyndar frekar almennt orðalag en það er alveg ljóst að aðili sem var að leigja út bifreiðar sem voru sagðar eknar 80 þúsund kílómetra en reyndust vera eknir 180 þúsund kílómetra, það eru ekki góðir viðskiptahættir.“
Viðtalið við Runólf í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi má nálgast hér.