Enginn bíll ársins valinn á Íslandi

Þann 29. þ.m. verður tilkynnt hvaða bíll hlýtur titilinn bíll ársins í Evrópu. Sjö bílar eru í lokavalinu, þar af er einn rafbíll; Nissan Leaf.

Val á bíl ársins hefur ekki farið fram á Íslandi síðan efnahagshrunið varð og innflutningur og sala nýrra bíla hrundi og hefur ekki enn náð sér á strik. Félag íslenskra bílablaðamanna sem stóð að því að velja bíl ársins á Íslandi hefur ekki séð tilgang í því að velja bíl ársins þegar innflutningur nýrra bíla til landsins er nánast enginn. Ennfremur hefur öll umfjöllun um bíla í fjölmiðlum dregist mjög saman og er vart svipur hjá sjón miðað við það sem hún var fyrir nokkrum árum.

http://www.fib.is/myndir/Ford-C-MAX-2011.jpg
Ford C-Max. Bíll ársins 2011 í Danmörku.
http://www.fib.is/myndir/Kia_sportage-2011.jpg
Kia Sportage. Bíll ársins í Skotlandi.
http://www.fib.is/myndir/Opel-meriva-2011.jpg
Opel Meriva. Bíll ársins í Svíþjóð.

En í löndunum í kring um okkur eru bílablaðamenn þessa dagana að velja bíla ársins. Í Danmörku er það fjölnotabíllinn Ford C-Max og í Svíþjóð Opel Meriva sem dönsku blaðamennirnir settu í fimmta sætið.

Það sem Danirnir töldu til helstu kosta Ford C-Max er að hann sé vel heppnaður lítill fjölnotabíll fyrir fjölskylduna með ágæta aksturseiginleika, meira að segja dálítið sportlega.

Sænsku bílablaðamennirnir voru sérstaklega hrifnir af því við Opel Meriva að dyrnar í aftursætið opnast fram á við, eins og tíðkaðist í bandarískum lúxusbílum á árunum milli stríða. Þessi opnun dyranna gerir inn- og útstig í aftursætið miklu auðveldari. Auk þess sé bíllinn vel og djarflega hannaður og  hafi ágæta og örugga aksturseiginleika.

Í Skotlandi er það nýi jepplingurinn Kia Sportage sem er bíll ársins. Hann fæst bæði fjórhjóla- og framhjóladrifinn og með 1,6 og 2,0 l bensínvélum og 1,7 lítra túrbínudísilvél. Sportage er eins og stóri bróðirinn Sorento, gerbreyttur bíll frá eldri gerðum. Skotunum þótti hann fallegur og vel hannaður, vel byggður, á hagstæðu verði og með sjö ára ábyrgð.