Enginn leikur heldur dauðans alvara
Michael G. Dreznes aðstoðarforstjóri Alþjóða vegasambandsins IRF (International Road Federation) hélt í morgun fyrirlestur um slysahættur sem leynast á vegunum og hvernig minniháttar mistök vegfarenda leiða oft til hræðilegra slysa. Hann lagði mjög þunga áherslu á ábyrgð veghaldara og vegahönnuða á því að gera vegina þannig úr garði að slysahætta á þeim verði í lágmarki. Vegirnir eigi að vera þannig hannaðir og lagðir að þegar ökumenn og vegfarendur geri mistök taki vegurinn og umhverfi hans við og verndi gegn dauða og örkumlum í stað þess að magna afleiðingar hinna mannlegu mistaka. Fyrirlesturinn sem var um tveggja klst. langur nefndist Forgiving Highways sem útleggja mætti verndandi eða fyrirgefandi vegir. Fundargestir voru einkum verkfræðingar, vegahönnuðir og vegagerðarmenn, fulltrúar tryggingafélaga og áhugafólk um slysavarnir og umferðaröryggi.
Hlýtt á Michael G. Dreznes.á Hótel Sögu í morgun. |
Í fyrirlestrinum rakti Drezner og útskýrði fjöldamörg atriði sem skipta miklu fyrir öryggi vegfarenda, svo sem eins og yfirborðsmerkingar, umferðarmerki og -skilti og vegrið og útafakstursvarnir og hvernig rangur frágangur og staðsetningar þessa getur leitt til mjög alvarlegra slysa. Hann gagnrýndi harkalega afsakanir sem veghaldarar og stjórnmálamenn hafa stundum uppi um þessi mál, þegar þeir segja að kostnaðurinn við að laga hlutina sé allt of mikill og óyfirstíganlegur. „Þetta er enginn leikur heldur dauðans alvara,“ sagði Drezner. „Það er ekki hægt að sitja með hendur í skauti og aðhafast ekkert. Með því erum við að lífláta fólk að ósekju eða fyrir minniháttar mannlegar yfirsjónir. Það er til tölfræði um þessa hluti sem sýnir að hvert dauðaslys sem verður vegna ágalla sem hægt hefði verið að lagfæra er að minnsta kosti sjötugfaldur lagfæringarkostnaðurinn.“
IRF eru alþjóðleg samtök fjölmargra aðila, bæði opinberra og óopinberra, sem vilja stuðla að öruggum samgöngum. Aðild að þeim eiga aðilar eins og opinberar stofnanir sem annast vegahönnun og vegagerð, vegaverktakar, verkfræðingar, bifreiðaeigendasamtök, slysavarnavélög o.fl. IRF samtökin voru stofnuð1948 og var megintilgangur þeirra í upphafi að endurbyggja vegakerfi og samgöngur eftir síðari heimsstyrjöld. „Markmiðið var þá og er enn að þeir sem að vegagerð og vegbótum koma geti borið sig saman, lært hverjir af öðrum og af mistökum hvers annars. Það sem ekki dugar í einu landi mun örugglega ekki duga í öðru,“ sagði Dreznes.
Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni tók viðtal við Michael Dreznes sem má hlusta á hér,viðtalið byrjar á 65.40 mín.
Nánar um Alþjóða vegasambandið IRF (International Road Federation)