Enginn Saab í Frankfurt
Stjórnendur Saab í Svíþjóð hafa tilkynnt að þeir taki ekki þátt í bílasýningunni í Frankfurt sem standa mun dagana 15.-25 september nk. Ástæðan er sögð sú að allt sé nú lagt í það að koma bílaframleiðslunni í gang á ný en hún var með höppum og glöppum í byrjun árs og hefur síðan engin verið frá því í vor. Margir telja að í raun séu dagar Saab senn taldir. Þetta merka bílmerki eigi sér tæpast viðreisnar von úr þessu.
Sænskir bílablaðamenn velta því fyrir sér hversu skynsamleg ákvörðunin sé, að vera fjarverandi frá Frankfurtsýningunni. Sýningin er haldin annað hvert ár og skiptist á við sýninguna í París. Frankfurtsýningin er ein sú stærsta í heiminum og gríðarlega fjölsótt. Á síðust sýningu árið 2009 komu yfir 13.000 blaðamenn frá tæplega 100 löndum til þess að skoða rúmlega 200 heimsfrumsýningar nýrra bíla. Sýnendur árið 2009 voru 781 en í ár verða þeir yfir 900 enda eru bæði ástand og horfur í bílaiðnaðinum betri nú en 2009.
Frankfurtsýningin eða IAA, Internationale Automobil-Ausstellung eins og hún nefnist fullu nafni er afskaplega mikilvægur vettvangur fyrir bílaiðnaðinn, ekki síst þann evrópska og þykir mönnum það því liggja nokkuð í augum uppi að það hafi ekki verið létt ákörðun að taka fyrir Saab-forystuna að taka ekki þátt í henni. Í raun séu þeir nauðbeygðir til þess bæði vegna fjárskorts og fátæktar og óvissu um áframhaldið.