Enginn skattaafsláttur af Ampera í Noregi
Opel Ampera / Chevrolet Volt er að mati norskra skattayfirvalda hvorki tvíorkubíll svipað og Toyota Prius né rafbíll. Því hefur nú verið ákveðið að enginn afsláttur verði veittur af skráningar- og aðflutningsgjöldum, hvað þá að bíllinn fái frítt í opinber bílastæði, frítt inn á gjaldskylda vegi og aðgang að sérstökum akreinum fyrir strætisvagna og leigubíla eins og rafbílar fá.
Bæði innflytjandinn Opel Norge og General Motors framleiðandi bílsins, eru ósammála þessu og flokka bílinn hiklaust sem rafbíl. -Bíllinn er knúinn áfram af rafmagni eingöngu og er því rafbíll- segir forstjóri Opel Norge.
Rafbílar eru undanþegnir vöru- og skráningargjöldum við innflutning til Noregs og ekki þarf heldur að greiða af þeim virðisaukaskatt. Án þessara gjalda hefði Opel Ampera kostað „út úr búð“ 285 þúsund norskar krónur eða tæpar sex milljónir ísl. kr. Nú þegar niðurstaða skattayfirvalda liggur fyrir mun verð bílsins líklega verða hátt í 8,5 milljónir ísl. kr. Það þýðir að búið er að skattleggja Opel Ampera / Chevrolet Volt út af norskum bílamarkaði.
Upplýsingafulltrúi Opel Norge, Helene A. Formo segir við norska fjölmiðla að miðað við þær skilgreiningar í lögum og reglugerðum um bíla sem nú gilda í Noregi þá þurfi niðurstaða yfirvalda svo sem ekki að koma á óvart. Ampera sé tæki sem í raun falli ekki undir neinar norskar lagaskilgreiningar. Nú þurfi að hefja viðræður við stjórnmálamenn og löggjafann um þessi mál því að ekki gangi að löggjöf standi í vegi fyrir umhverfismildum nýjungum eins og Opel Ampera / Chevrolet Volt. Ekki geti mikil sanngirni falist í því að full gjöld leggist á bíl sem einungis gefur frá sér 44 g pr. kílómetra af CO2 og keyrir allt að 60 kílómetra á rafmagni einu saman, meðan tvinnbílar og metangasbílar sem gefa frá sér í kring um 80 grömm af CO2 á kílómetrann séu gjaldfrjálsir.
Samkvæmt rannsóknum um meðal dagsakstur Norðmanna er hann 37 kílómetrar. Það getur þýtt það að Opel Ampera virkar sem hreinn rafbíll í flestum daglegum heimilisakstri og rafstöðin sem er um borð í bílnum fer þá varla nokkru sinni í gang (ef eigendur muna eftir því að stinga bílnum í samband til hleðslu að kvöldi).