Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins kynntur
Sáttmáli ríkisins og sex sveitarfélaga um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum var undirritaður í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrar borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sáttmálann.
Sáttmálin gerir ráð fyrir 120 milljarða framkvæmdum í samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu. Meðal framkvæmda er að Sundabraut verður lögð og hlutar Miklubrautar og Sæbrautar verða settir í stokk. Þá verður ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu svo eitthvað sé nefnt.
Í tilkynningu frá Samgönguráðuneytinu segir að samkomulagið feli í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið sé að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.
Markmið samkomulagsins er fjórþætt:
- Greiðari samgöngu og fjölbreyttir ferðamátar.
- Kolefnislaust samfélag.
- Aukið umferðaröryggi.
- Samvinna og skilvirkar framkvæmdir.
50 milljarðar í Borgarlínu
Af þeim 120 milljörðum sem áætlaðir eru í framkvæmdirnar mun ríkið leggja til 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða. Gert er ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum krónum. Hún verður tryggð við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins.
Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir.
Félag í eigu ríkis og sveitarfélaga verður stofnað um framkvæmdirnar og fjármögnun þeirra. Ríkið skuldbindur sig til að leggja uppbyggingarland að Keldum inn í félagið og mun ábati af þróun þess renna til uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að félagið, sem stofnað verður um framkvæmdirnar, geti innheimt svonefnd flýti- og umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins. Enn á eftir að útfæra tillögurnar í þessum efnum. Önnur fjármögnun félagsins gæti verið í formi sérstakra ríkisframlaga eða hlutdeild í öðrum tekjustofnum tengdum samgöngum.
Fram kemur í tilkynningu að fara á í framkvæmdir í samgöngumálum á næstu 15 árum sem annars tæki 50 ár að klára á núverandi framkvæmdahraða að því er segir í tilkynningunni. Fram kemur að sérstök fjármögnunin upp á 60 milljarða verði tryggð með endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum af sölu á eignum ríkisins.
Endurskoðun stendur nú yfir á tekjustofnum ríkisins vegna ökutækja og eldsneytis vegna orkuskipta. Hluti þeirrar vinnu verður að breyta gjaldtöku með þeim hætti að í ríkari mæli verði treyst á gjöld af umferð í stað bensín- og olíugjalda. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að félagið, sem stofnað verður um framkvæmdirnar, geti innheimt svonefnd flýti- og umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins. Önnur fjármögnun félagsins gæti verið í formi sérstakra ríkisframlaga eða hlutdeild í öðrum tekjustofnum tengdum samgöngum segir í kynningu sem kom fram á fundinum.
Áform eru um að taka upp sértæka gjaldtöku víðar á landinu til að fjármagna stærri samgönguframkvæmdir og rekstur jarðganga. Dæmi um þetta eru tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi ásamt láglendisvegi um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Samgönguráðherra hefur í hyggju að þessar framkvæmdir verði fjármagnaðar með veggjöldum í einkaframkvæmd. Í nokkrum tilfellum kemur til greina að ríkið leggi til allt að helming kostnaðar.
Fram kom í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að álögur eiga ekki að þurfa að breytast þótt leiðir til fjármögnunar á nýju samgöngukerfi breytist, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Málið snúist einnig um forgangsröðun í ríkisfjármálum.
„Það er nú markmiðið með þessu öllu að finna leiðir til þess að það þurfi ekki að gerast og það á ekki að þurfa að gerast vegna þess að við erum með fjármagn til þess að framkvæma,“ sagði Bjarni í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.
Til dæmis jafngildi eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka því að fara í þessa stórkostlegu uppbyggingu til fimmtán ára á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Málið snúist líka um það að gera upp á milli valkosta og forgangsraða ríkisfjármálum.
Helstu framkvæmdir samkvæmt samkomulaginu
Þær framkvæmdir eri feitletraðar sem verður flýtt miðið við tillögu viðræðuhóps um uppbyggingu samgangna á höfuðuborgarsvæðinu til 2033 frá nóvember 2018.
Framkvæmdir |
Upphaf |
Lok |
Vesturlandsvegur: Skarhólabraut – Hafravatnsvegur |
2019 |
2020 |
Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur – Krísuvíkurvegur |
2019 |
2020 |
Suðurlandsvegur: Bæjarháls – Vesturlandsvegur |
2021 |
2021 |
Reykjanesbraut: Gatnamót við Bústaðaveg |
2021 |
2021 |
Arnarnesvegur: Rjúpnavegur – Breiðholtsbraut |
2021 |
2021 |
Sæbrautarstokkur: Vesturlandsvegur – Holtavegur |
2021 |
2022 |
Borgarlína: Ártún – Hlemmur |
2021 |
2023 |
Borgarlína:Hamraborg – Hlemmur |
2021 |
2023 |
Miklabrautarstokkur: Snorrabraut – Rauðarárstígur |
2022 |
2023 |
Borgarlína: Hamraborg – Lindir |
2023 |
2024 |
Borgarlína: Mjódd – BSÍ |
2024 |
2026 |
Miklabrautarstokkur: Rauðarárstígur – Kringlumýrarbraut |
2024 |
2026 |
Reykjanesbraut: Álftanesvegur – Lækjargata |
2024 |
2028 |
Suðurlandsvegur: Norðlingavað – Bæjarháls |
2027 |
2027 |
Borgarlína: Kringlan – Fjörður |
2027 |
2030 |
Hafnarfjarðarvegur: Stokkur í Garðabæ |
2028 |
2030 |
Borgarlína: Ártún – Spöng |
2029 |
2031 |
Borgarlína: Ártún – Mosfellsbær |
2031 |
2033 |