Volkswagen ætlar að verða stærsti tvinn- og rafbílaframleiðandi heims
Volkswagen ætlar að verða fremst í framleiðslu rafbíla og tvinnbíla og verða sjálfbær í framleiðslu rafgeyma í nýrri risaverksmiðju sem byggð verður. Þetta er stefnubreyting sem orðin er eftir öll þau vandræði sem Volkswagen rataði í með svindlbúnaði í dísilbílum sem fegraði og falsaði raunveruleg eyðslu- útblásturs- og mengunargildi bílanna.
Með rafgeymaverksmiðjunni fetar Volkswagen svipaða slóð og Tesla hefur gert með byggingu rafgeymaverksmiðju sinnar Gigafactory í Nevada í Bandaríkjunum. Markmið beggja er það að verða minna háð rafhlöðum sem framleiddar eru hjá undirframleiðendum hér og þar, sem og að lækka verð þeirra. Volkswagen vill verða forystuafl heimsins í framleiðslu rafbíla og tvinnbíla strax árið 2018 og samkvæmt áætlunum á ársframleiðsla þessara bíla að ná einni milljón bíla strax árið 2025. Þetta kemur fram í þýska viðskiptafréttamiðlinum Handelsblatt í morgun, 1.júní.
Rafhlöðuverksmiðja Volkswagens verður risavaxin. Stofnkostnaðurinn er áætlaður 9,7 milljarðar evra sem er tvöfaldur stofnkostnaður rafhlöðuverksmiðju Tesla í Nevada. Staðsetning nýju VW rafhlöðuverksmiðjunnar hefur ekki verið gefin upp ennþá