Nýjar reglur um skoðun ökutækja
Eins og fram hefur komið tók í gildi 1. maí sl. ný reglugerð nr. 414/2021 um skoðun ökutækja, sem ætlað er að stuðla að auknu umferðaröryggi. Ákveðin atriði reglugerðarinnar koma þó ekki til framkvæmda fyrr en um næstu áramót, 1. janúar 2022.
Ýmis nýmæli og breytingar koma fram með reglugerðinni. Sum atriði eiga erindi við alla eigendur og umráðamenn ökutækja en jafnframt eru önnur sem snúa að tilteknum gerðum ökutækja. Með reglugerðinni eru kröfur og heimildir uppfærðar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.
Nokkrar áhugaverðar breytingar má sjá í nýju reglugerðinni og fagnar Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, nokkrum þeirra sem þar koma fram. Þar má sjá m.a. breytingar sem lúta að nýrri skoðunartíðni ökutækja í notkunarflokknum ,,ökutækjaleiga“
Búið er að færa aðalskoðun nýrra bílaleigubíla úr fjórum árum niður í þrjú og er það jákvæð framför þar sem akstur er alla jafna töluvert meiri en á almennum fólksbílum. Einnig hefur verið skerpt á skoðunartíðni annarra þjónustubifreiða. Þar kemur fram að ökutæki sem skráð eru í notkunarflokkinn ökutækjaleiga frá og með 1. janúar 2022 fá nýja skoðunartíðni. Skal færa þau fyrst til reglubundinnar skoðunar innan þriggja ára frá því ökutækið var fyrst skráð, að frátöldu skráningarári, á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og árlega upp frá því. Skoðunartíðnin verður því 3-2-2-1... en var áður 4-2-2-1. Samanber 6. grein - b-liður 1. málsgrein
Skoðunarskylda við breytingu á notkunarflokki
Ef ökutæki er fært í nýjan notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni en sá sem ökutækið var áður í, t.d. þegar ökutæki er fært úr notkunarflokki ökutækjaleiga í almenna notkun, þarf að færa ökutækið til skoðunar áður en breyting á notkunarflokki getur átt sér stað, þ.e. hafi það ekki þegar verið fært til skoðunar (reglubundinnar skoðunar, skráningarskoðunar, samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar) á því ári. Samanber 6. grein - 3. málsgrein
Þá ber einnig að nefna á óeðlilega breytingu á stöðu akstursmælis. Þar segir að ef óeðlileg breyting hefur átt sér stað á stöðu akstursmælis, t.d. ef eknum kílómetrum fjölgar ekki á milli skoðana, þá færist athugasemd þar um í ferilskrá bílsins. Samanber 21. grein - 6. málsgrein
Brugðist hefur verið við vegna heimsfaraldursins og geta eigendur fengið framlengingu á endurskoðunarfrest vegna tafa á afhendingu varahluta eða skerts afgreiðslutíma verkstæða. Komi upp ágreiningsmál vegna skoðunar getur eigandi óskað eftir áliti frá Samgöngustofu vegna málsins og er það gert í gegnum eyðublað á vef stofnunarinnar.
Búið er að færa aðalskoðun nýrra bílaleigubíla úr fjórum árum niður í þrjú og er það jákvæð framför þar sem akstur er alla jafna töluvert meiri en á almennum fólksbílum. Einnig hefur verið skerpt á skoðunartíðni annarra þjónustubifreiða.
Aðgengilega samantekt á helstu breytingum og nýmælum reglugerðarinnar má finna á sérstakri vefsíðu Samgöngustofu.