Engir knastásar
Stóru bíla- og bílvélaframleiðendurnir í heiminum hljóta að vera orðnir gulir og grænir af öfund í garð brautryðjendanna hjá Koenigsegg á Skáni í S. Svíþjóð. Hið sænska AM&S greinir nefnilega frá því að þar sé um þessar mundir verið að reynsluaka algerri tímamóta bílvél. Í henni er nefnilega enginn knastás til að opna og loka ventlunum yfir brunahólfum vélarinnar heldur er það gert með þrýstilofti. Vélinni er reynsluekið í bíl af Saab 9-5 gerð og hefur gengið ágætlega hingað til. Orkunýtnin er miklu betri en hjá vélum með knastás, eyðslan er þegar um 30% minni og aflið að sama skapi meira. Sjá myndband þar sem Christian von Koenigsegg skýrir tæknina út.
Ef við hugsum okkur bílvél án knastáss eða knastása þá þýðir það að vélin verður miklu einfaldari og verulega efnisminni og og þar með fyrirferðarminni og léttari. Engar áhygjur þarf lengur að hafa af biluðum tímakeðjum og tímareimum og vélin verður mun einfaldari í framleiðslu og þar með ódýrari. Varðandi eldsneytisnýtinguna þá verður hún miklu betri og aflið sömuleiðis mun meira. Þá verður allt viðhald vélarinnar miklu einfaldara og ódýrara þar sem ekki þarf lengur að hugsa um að skipta út tímakeðjum, tímareimum og slíku.
Koenigsegg er í samstarfi um knastáslausu vélina við annað sænskt tæknifyrirtæki sem heitir Cargine. Tæknistjóri þess segir í myndbandinu að sá eldsneytissparnaður sem sé fylgifiskur þessarar tækni verði 25–50 prósent. Það ráðist að nokkru af því í hversu miklum mæli þrýstiloft er notað.