England hækkar hámarkshraðann í 130?
Búist er við því að bresk stjórnvöld ákveði innan skamms að hækka hámarkshraðann á hraðbrautum Bretlands í 80 mílur á klst eða tæplega 130 km á klst. Breska samgönguráðuneytið segir að það sé í góðu samræmi við bæði hagkvæmnis- og öryggissjónarmið. Fleiri Evrópulönd eru í sömu hugleiðingum. Þannig hækkar hámarkshraðinn senn í Póllandi í 140 og á Ítalíu er hann víða orðinn 150 km á klst.
Í Bretlandi hefur hæsti hámarkshraði verið sá sami allt frá árinu 1965, eða 70 mílur. Árið 1965 komust flestir venjulegir fjölskyldubílar einfaldlega ekki hraðar en 70-80 mílur á klst. en sambærilegir nútímabílar eru bæði miklu öruggari en bílar sjöunda áratugarins og jafnframt mun hraðskreiðari.
Breska samgönguráðuneytið hefur látið gera fjölda rannsókna á vegakerfinu og niðurstöðurnar eru þær að allar forsendur séu til þess að hækka hámarkshraðann þegar í stað, bæði öryggis- og hagkvæmniforsendur.
130 km hámarkshraði er mjög algengur í Evrópu um þessar mundir. Meðal landa sem hafa 130 km hámarkshraða eru stór lönd eins og Frakkland og Pólland (ennþá). Á Ítalíu er 130 km hámarkshraði algengastur en á mörgum bestu hraðbrautunum er hann sem fyrr segir kominn upp í 150.
Þjóðverjar láta aðstæður ráða hámarkshraðamörkum. Á mörgum eldri hraðbrautum er hann 120 km á klst. Á um það bil einum fjórða hluta þýsku hraðbrautanna eru hins vegar alls engin hámarkshraðamörk. Þrátt fyrir það verða hlutfallslega færri dauðaslys á þeim köflum þar sem engin hámarkshraðamörk eru heldur en þeim köflum þar sem hámarkshraðamörk eru í gildi.
Spánn hægir ferðina úr 120 í 110
En þótt tilhneigingin í Evrópu sé sú að hækka hraðann er hið þveröfuga að gerast á Spáni. Þar hafa yfirvöld nú lækkað hámarkshraðann á hraðbrautunum úr 120 í 110 km á klst. Ákvörðunin var tekin snarlega og strax í gær var byrjað að skipta út rúmlega sex þúsund skiltum á hraðbrautum Spánar. „Við förum aðeins hægar en í staðinn eyðum við minna eldsneyti og spörum peningana okkar,“ sagði Alfredo Perez Rubalcaba innanríkisráðherra við spænska fjölmiðla sem fullyrða að ákvörðunin eiga sér rætur í borgarastyrjöldinni í Líbýu, en Spánverjar kaupa um 13% þess eldsneytis sem þeir nota frá Líbýu. Spænsk stjórnvöld fullyrða að hámarkshraðalækkunin leiði til 15% sparnaðar. Óháðir aðilar segja sparnaðinn hins vegar verða í mesta lagi um 5%.