Enn ein hlaðan á landsbyggðinni tekin í notkun
ON og N1 hafa tekið í notkun nýja hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla við þjónustustöð N1 á Sauðárkróki. Hlaðan er sett upp með styrk frá Orkusjóði og í samstarfi við Vistorku, samstarfsvettvang norðlenskra sveitarfélaga og Norðurorku að ýmsum umhverfismálum. Þetta er 31. hlaðan sem ON hefur sett upp víðsvegar um landið og sú áttunda sem er á þjónustustöð N1.
Það var Þórhallur Rúnar Rúnarsson, stöðvarstjóri N1 á Króknum, sem tók hlöðuna formlega í notkun. Páll Örn Líndal, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, og Hafrún Huld Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá ON, tóku líka þátt í viðburðinum.
Fyrir rúmu ári gerðu ON og N1 rammasamkomulag um uppsetningu á hlöðum á þjónustustöðvum N1 og er unnið eftir því við að auka enn frekar á möguleika rafbílaeigenda til að hlaða farartækin sín.Hlaðan á Sauðárkróki er búin hraðhleðslu eftir japönskum og evrópskum staðli auk hefðbundinnar hleðslu (AC).
Hringurinn opinn – þétting netsins
Hringvegurinn er þegar opinn rafbílaeigendum þar sem ON hefur varðað hann hlöðum. Á næstu vikum og mánuðum mun net þessara innviða orkuskipta í samgöngum þéttast með fjölgun hlaða á höfuðborgarsvæðinu og utan hringvegarins. ON leggur áherslu á að hægt sé að sækja þjónustu við hlöðurnar og hefur samstarfið við N1 verið lykilþáttur í hraðri uppbyggingu síðustu misseri.
Víðast eru nokkrir tugir kílómetra á milli hlaða ON. Á milli Norður- og Austurlands er lengst á milli hraðhleðsla en á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal hefur ON komið upp búnaði sem hleður hraðar en hefðbundin hleðsla en þar sem ekki er þriggja fasa rafmagn á svæðinu er ekki hægt að setja þar upp hraðhleðslu.