Enn einn „fortíðarbíllinn“

Fortíðarþrá á nokkuð upp á pallborðið hjá bílaframleiðendum þessi árin og er hinn ágætlega heppnaði Fiat 500 gott dæmi um það. Annar frægur bíll frá því um miðja síðustu öld er Citroën bragginn og nú hefur verið ákveðið að hefja fjöldaframleiðslu á nýjum smábíl sem líkist bragganum í útliti. Hann mun fá gerðarheitið DS2 og kemur á Evrópumarkað haustið 2012.

Citroën DS2 á efri myndinni.
Á þeirri neðri Citroën 2CV.
http://www.fib.is/myndir/Citroen_DS2_bak.jpg
http://www.fib.is/myndir/Citroen-2cv.jpg

Á bílasýningunni í Frankfurt 2009 sýndi Citroën hugmyndabílinn Revolte sem bar sterkan svip af gamla bragganum frá 1948. Móttökurnar hafa greinilega verið það góðar að Citroën telur óhætt að hella sér í fjöldaframleiðslu á bílnum.

Revolte var reyndar dæmigerður sýningarbíll og útbúinn þannig að ýmsu leyti þannig að ólíklegt er að fjöldaframleiddur bíll í ódýrari kantinum yrði nokkru sinni útbúinn á sama hátt.  M.a. opnuðust dyrnar í aftursætið á Revolt fram á við og enginn B-póstur var í honum, en svo verður ekki á DS2 né var á bragganum gamla. DS2 verður semsé dæmigerður lítill fimm dyra hlaðbakur, um 370 sm langur og að öðru leyti að stærð mitt í milli Citroën C1 og Citroën C3.

DS2 verður með þriggja strokka sparneytinni 1,4 l túrbínubensínvél sem þróuð er í samvinnu BMW og Citroën. Þessi vél verður í mismunandi útfærslum og afli frá 65 til 110 ha. Verð bílsins er sagt verða frá 12.000 evrum sem er um tvær milljónir ísl. kr.