Enn einu sinni er GM í vandræðum
26.04.2005
Cadillac Escalade.
General Motors bílaframleiðslurisinn hefur undanfarin ár verið þjakaður af vandamálum og taprekstri ekki síst á síðasta ársfjórðungi og ekki skánar það nú þegar þeir neyðast til að innkalla yfir tvær milljónir bíla vegna galla í öryggisbúnaði sem verður að lagfæra. Langflestir bílanna eru framleiddir í Bandaríkjunum.
Þessi risastóra innköllun nær að mestu leyti til pallbíla, jeppa og jepplinga og meginástæða hennar er sú að bílbeltin í aftursæti bílanna eru vitlaust hönnuð. Bílagerðirnar sem um ræðir eru 1,5 milljón Chevrolet Silverado, Suburban, Tahoe, Avalanche, GMC Yukon og Cadillac Escalade árgerð 2003-2005. Auto motor & Sport hefur eftir talsmanni GM í Bandaríkjunum að engar skýrslur liggi fyrir um slys og meiðsli sem rekja megi til hönnunargallans. Innköllunin sé því algjörlega að frumkvæði GM sjálfs.
En til viðbótar við hönnunargallann í aftursætisbeltunum er GM líka að innkalla mikinn fjölda bíla vegna ýmissa annarra galla, svo sem í stöðuhemli og hemlum. Samtals er um tvær milljónir bíla að ræða.
Meðal annarra innkallana en vegna aftursætisbeltanna eru 330 þúsund Chevrolet Suburban og Yukon XL jeppar af árgerð 2001 og 2002. Í þeim er gölluð bensíndæla sem getur leitt til þess að bílarnir verði erfiðir í gang, drepi á sér eða taki að leka bensíni. Talsmaður GM segir við blaðið að haft verði samband við eigendur bílanna og þeim boðið að koma með þá til viðgerðar á kostnað GM.
Á síðasta ári þurfti GM að innkalla til viðgerða yfir fjórar milljónir bíla og í síðustu viku voru birtar niðurstöðutölur af rekstrinum á síðasta ársfjórðungi. Þær sýndu tap upp á 1,1 milljarð dollara og stórminnkandi markaðshlutdeild í Bandaríkjunum fyrir japönskum keppinautum, þannig að útlitið er ekki bjart, vægast sagt.