Enn reynir Cadillac við Evrópu
Cadillac-deild General Motors vonast nú til að Genfarsýningin sem senn hefst verði nýtt upphaf að landnámi Cadillac merkisins í Evrópu. Enn einu sinni á að reyna að selja Evrópumönnum þessa um margt ágætu og vönduðu bíla en síðasta alvarlega tilraunin sem hófst fyrir rúmum fimm árum fór algerlega út um þúfur og sérstakt Evrópuumboð, Kroymans í Hollandi er orðið gjaldþrota.
Brian Nesbitt forstjóri við CTS Coupé. |
Upphaflegt markmið GM var að selja 20.000 Cadillac bíla á ári í Evrópu og átti aðalbíllinn að vera Cadillac BLS sem í grunninn var Saab 9-3 og meira að segja skrúfaður saman hjá Saab í Svíþjóð. Áætluð Evrópusala á Cadillac BLS var 10 þúsund bílar á ári en það markmið náðist alls ekki: Einungis um 2 þúsund bílar seldust af BLS og aðrar gerðir nánast ekki neitt.
Þetta Evrópuátak GM fyrir um fimm árum náði ekki bara til Cadillac merkisins heldur einnig til Chevrolet Corvette og Hummer, en ekki gekk þeim vörumerkjum neitt betur og varð Evrópuumboðið sem fyrr segir gjaldþrota á síðasta ári.
En nú skal enn reynt og skal Genfarsýningin verða einskonar nýtt upphaf. GM hefur stofnað eigið sölufyrirtæki sem heitir Cadillac Europe og aðaláherslan verður á gerðina CTS og allar undirgerðir CTS. Á Genfarsýningunni verður sportútgáfan CTS-V sem Bob gamli Lutz staðhæfði að væri hraðskreiðasti og öflugasti óbreytti fólksbíll í veröldinni og staðfesti það raunar á kappakstursbraut eins og sagt var frá hér á fréttavef FÍB sl. haust.
Auk CTS-V verða fáanlegir í álfunni á þessu ári CTS Wagon skutbíll og CTS Coupé sem er tveggja dyra og loks jepplingurinn SRX. Allar þessar gerðir verða til sýnis í Genf.