Er lækningin verri en sjúkdómurinn?
19.09.2007
OECD hefur gefið út mjög gagnrýna skýrslu um lífrænt eldsneyti á bíla. Titill hennar er –Biofuels: Is the Cure Worse Than the Disease? (Er lækningin verri en sjúkdómurinn?) Skýrsluna er að finna á vefsíðu OECD.
Niðurstaða skýrsluhöfunda er í stuttu máli sú að aukinn áhugi og auknir ríkisstyrkir til framleiðslu á lífrænu eldsneyti eins og spíra (etanóls), hafi leitt til hækkana að undanförnu á matvælum. Miðað við takmarkaðan umhverfisverndarávinning sé lífeldsneytið allt of dýru verði keypt. Framleiðslukostnaður sé mikill og akurlendi sé í stórum stíl lagt undir það að rækta hráefni til eldsneytisframleiðslu í stað matar fyrir fólk. Það geti hæglega leitt til matvælaskorts og háskalegrar einhæfni í gróðurfari á stórum svæðum.
Þótt um 40% minna CO2 leysist út í loftið við bruna etanóls en við bruna t.d. bensíns þá telur OECD í skýrslunni að með breyttri landnotkun vegna stóraukinnar ræktunar „eldsneytisplantna“ þá aukist að sama skapi hætta á að ástandið versni en ekki batni. Fylgifiskar hinnar einhæfu ræktunar verði súrnun jarðvegs, mikil áburðarnotkun, notkun skordýraeiturs og vaxandi einhæfni í gróðurfari. Allt þetta geti hæglega leitt til stóraukinnar myndunar CO2 sem hreinlega jafnar út ávinningnum við brunann og jafnvel gott betur en það.
Bent er á að aukin áhersla á Etanól hefur þegar valdið verulegum verðhækkunum á t.d. maís sem veldur fátæku fólki og þjóðum miklum og vaxandi vandræðum að því er kemur fram í skýrslunni. Gleggsta dæmið um þetta eru miklar verðhækkanir á maís í Mexíkó í kjölfar yfirlýsinga Bandaríkjaforseta um stóraukna etanólframleiðslu úr maís.
Mörg ríki styðja beint eða óbeint dyggilega við bakið á framleiðslu lífræns eldsneytis til að draga sem skjótast úr olíubrennslu, bæði í þeim tilgangi að draga úr útloftun gróðurhúsalofttegunda og að samfélögin verði stöðugt minna háð olíu og bensíni. Þetta segir OECD að skapi spennu á mörkuðum. Hinn hlutfallslegi ávinningur af því lífræna eldsneyti sem nú er notað í heiminum þýði einungis 3% minni CO2 útblástur. Það sé óverulegur ávinningur sem hefur verið óhemju dýrkeyptur og geti hreinlega leitt til versnandi ástands eins og fyrr er sagt.
Í skýrslunni kemur fram að ríkisstyrkir við framleiðslu á etanóli fyrir bíla, m.a. úr maís nemi um sjö milljörðum dollara árlega í Bandaríkjunum. Brennsla etanólsins þýði að minna berst út í andrúmsloftið af CO2 miðað við það að enginn einasti bíll væri knúinn etanóli. Þessir ríkisstyrkir jafngildi því að hvert tonn af koldíoxíði sem sem „sparast“ vegna etanólnotkunarinnar kostar í raun um 500 dollara. Þá telur OECD að ríkisstyrkir við etanólframleiðsluna í Evrópu stefni í að verða tífalt hærri en í Bandaríkjunum.
OECD mælir þó ekki með því að lífeldsneytisframleiðslunni verði hreinlega hætt og öll frekari áform um hana lögð á hilluna heldur að ríkisstyrkjum verði hætt. Þess í stað verði reynt að ná tökum á CO2 útblæstrinum með því að skattlegja hann. Með því móti muni markaðurinn sjálfur finna leiðir til að minnka útblástur CO2 og annarra gróðurhúsaloftegunda.
OECD er skammstöfun á nafni Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar sem heitir fullu nafni Organization for Economic Co-operation and Development. Stofnunin vinnur einkum að samstarfi iðnríkjanna í efnahagsmálum. Höfuðstöðvar hennar eru í París.