Er sumt af hátækni í bílum óþarft?
Bílaframleiðendur verja fleiri fleiri milljörðum í það að upphugsa og búa til alls kyns hægðaraukabúnað í bílana, eigendum og notendum þeirra til léttis, gleði og ánægju. En hvað svo? Nýta þeir svo allar fínu græjurnar og fídusana? Það gera þeir fæstir ef marka má nýja könnun sem bandaríska neytendastofnunin JD Power hefur gert.
JD Power kannaði hverst stór hluti bílanotenda nýtir sér allan tækni- og þægindabúnaðinn í nýjustu bílunum og að hve miklu leyti. Niðurstaðan kemur á óvart og hún er í stórum dráttum sú að eftir að hafa átt nýja bílinn í þrjá mánuði hafði einungis fimmti hver bíleigandi notað minna en helming þess tæknibúnaðar sem til staðar var í bílnum.
Sá tæknibúnaður sem flestir aðspurðra í könnuninni sögðust aldrei nota var gagnvirkur upplýsingabúnaður sem kallast in-vehicle concierge (43%). Þessi búnaður er raddstýrður og hægt er að spyrja hann um hvaðeina eins og um næstu bensínstöð eða apótek eða látið hann panta miða á næstu frumsýningu í óperunni. Annar lítið notaður búnaður er mótaldið sem heldur bílnum tengdum við Internetið (38%), sjálfvirki búnaðurinn sem leggur bílnum í stæði (35%) og innbyggð smáforrit eða öpp til ýmissa nota (32%). Margir aðspurðra kváðust frekar nota snjallsíma sína frekar en innbyggðu smáforritin. Þeir kynnu vel á síma sína og töldu óþarft að læra á einhvern innbyggðan búnað bílsins sem gerir það sama. Meðal þessara forrita sem næstum enginn vill eru Apple CarPlay og Google Android Auto.
Hinir aðspurðu voru hins vegar mjög ánægðir með ýmsan annan nýjan tæknibúnað bílanna sem stuðlar að bættu öryggi í umferðinni og voru tilbúnir að færa sér hann í nyt. Ekki síst með skriðstillibúnað sem les umferðarskilti og sækir upplýsingar í GPS staðsetningartunglin og stillir hraða bílsins af í samræmi við leyfðan hámarkshraða á þeim vegarköflum sem farið er um hverju sinni. Einnig voru þeir mjög ánægðir með búnað sem sér og varar ökumenn við vegfarendum og öðru sem kann að leynast í skuggasvæðum í kring um bílinn og sést ekki í speglum eða út um bílgluggana.