Er þetta í lagi?
Til að hægt sé að skrá bíla og taka í notkun hér á landi eins og víðast hvar annarsstaðar í veröldinni, þurfa bílar að uppfylla fjölmargar kröfur, ekki síst kröfur um öryggi þeirra sem í þeim ferðast og um öryggi annarra í umferðinni. Fjöldaframleiddir bílar fá síðan gerðarviðurkenningu ef allt er eins og vera ber.
Sérsmíðaðir bílar og breyttir bílar þurfa að standast sérskoðun þar sem gengið er úr skugga um að allur búnaður og bygging bílsins sé í lagi og innan öryggismarka.
Hvað gægist þarna niður undan bílnum? |
Tveir metangaskútar um fet frá veg-yfirborði. |
Úttak og þrýstijafnarar óvarðir fyrir grjótkasti frá afturhjólinu. Spenn-urnar sem halda gasgeymunum virðast heldur ekki allt of traustvekjandi. |
Að breyta bensínknúnum bíl í metanknúinn er meiriháttar breyting sem kallar á sérstaka skoðun. Í henni hlýtur að eiga að ganga úr skugga um að allur búnaður er þannig að ekki stafi af honum bruna- eða sprengihætta og að allur frágangur gasgeyma, gaslagna sé þannig að ekki skapist meiri hætta en ella, bæði í venjulegri notkun og eins ef bíllinn lendir í slysi eða óhappi. Ef allt er í lagi að mati skoðunaraðila gefa þeir út vottorð eða viðurkenningu á því að svo sé. Skoðunarmenn hljóta þannig að skoða hinn breytta bíl út frá þeirri forsendu að viðbótarbúnaðurinn raski ekki eða sem allra minnst þeim öryggismörkum sem framleiðandi setti bílnum og byggði inn í hann áður en hann sendi hann frá sér.
Félagsmaður í FÍB sendi okkur þessar myndir sem hér sjást. Þær eru af bandarískum jeppa sem breytt hefur verið svo hann geti gengið fyrir metangasi.
Tveimur stórum gaskútum hefur verið komið fyrir afturundir bílnum eins og sjá má af myndunum. Kútarnir eru mjög síðir og augljós hætta á því að þeir geti orðið fyrir höggi, bæði ef ekið yrði aftan á bílinn eða þeir tækju niðri á vondum vegi og hvað gæti þá gerst?
Þegar betur er að gætt kemur svo í ljós til viðbótar að úttak gaskútanna eru alls óvarin fyrir grjótkasti og öðrum ákomum. Spurningin er því sú hvort þessi frágangur hafi fengið viðurkenningu. Getur það verið að þetta teljist vera í lagi og öruggt og pottþétt? Bíllinn er allavega í umferð þannig að svo hlýtur að vera.