Er þetta löglegt og ásættanlegt?
Félagsmenn í FÍB og vegfarendur hafa oft samband við skrifstofu félagsins til að koma á framfæri ábendingum og fyrirspurnum. Í vikunni fengum við hjá FÍB fyrirspurn frá félaga sem sendi okkur jafnframt meðfylgjandi myndir af fjórhjóli fyrir fullorðna á ferð yfir gangbraut í Reykjavík. Félaginn vildi fá álit á akstri þessa vélknúna ökutækis og hvort það væri löglegt og ásættanlegt að svona farartæki æki um göngu- og reiðhjólastíga og þveraði umferðargötu á gangbraut.
Fjórhjólið á myndinni er samkvæmt heimildum FÍB með 110cc aflvél og nær hraða allt að 70 km/klst.
Í kjölfarið leitaði FÍB til Samgöngustofu og bar undir stofnunina þrjár spurningar. Þórhildur Elínardóttir upplýsingarfulltrúi Umferðarstofu sendi FÍB eftirfarandi svör:
1. Er það leyfilegt að vera á númerslausu (óskráðu) farartæki í umferðinni?
Ef tækið flokkast undir skilgreiningu umferðarlaga á reiðhjólum er það ekki skráningarskylt og má aka því á gangstéttum og gangstígum. Þannig tæki getur t.d. verið hjólastóll (hámarkshraði 15 km/klst) eða lítið vél- eða rafknúið ökutæki (hámarkshraði 25 km/klst). Aflmeiri fjórhjól geta annað hvort verið skráð til götuaksturs (og flokkast þá sem bifhjól) eða sem torfærutæki. Í báðum tilfellum þarf fjórhjólið að vera skráð en aðeins því götuskráða er heimilt að aka í umferðinni og þá á akbraut. Ef fjórhjólið er hins vegar skráð torfæruskráningu er akstur þess eingöngu heimill á snjó eða hjarni, lokuðum aksturssvæðum og einkavegum.
2. Er það ásættanlegt að svona vélknúið farartæki sé í akstri á gangstígum og reiðhjólabrautum og sé ekið eins og myndirnar sýna, yfir umferðargötu á þverun sem sérstaklega er ætluð gangandi?
Erfitt er að greina af myndunum hvort tækið hefur skráningarmerki eða hámarkshraða þess. Falli það undir aflmeira fjórhjól er það augljóslega ekki á réttum stað.
3. Eru einhver viðurlög við því hátterni sem myndirnar sýna?
Það fer eftir því hvernig ökutæki er hér á ferð og hugsanlega ökuréttindi ökumanns. Ef um er að ræða skráningarskylt ökutæki, skráð eða óskráð, sem notað er samkvæmt reglum sem gilda um tæki sem falla í flokk reiðhjóla getur komið til sekta og annarra viðurlaga vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
- Ekið eftir gangstétt eða gangstíg, 5.000 kr, ef hættu valdið með þannig akstri 15.000 kr.
- Við brotum gegn sérreglum fyrir reiðhjól, bifhjól eða torfærutæki er 5 – 10.000 kr
- Akstur bifhjóls án þess að hafa öðlast ökurétt í fyrsta sinn, 10.000 kr.
- Akstur torfærutækis án þess að hafa öðlast tilskilinn ökurétt í fyrsta sinn, 5.000 kr
- Ef áskilinn búnaður ökutækis er ekki fyrir hendi eða í lagi 5 – 10.000 kr pr atriði.
- Ef tækið er skráningarskylt og það ekki með skráningarmerki, 10.000 kr.
Þórhildur Elínardóttir
Upplýsingafulltrúi Samgöngustofu
Önnur ábending barst nýlega frá FÍB félaga varðandi umferð á göngustíg. Félagsmaðurinn hafði verið á gangi með heimilishund í bandi á göngustíg sjávarmegin við Norðurströnd á mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness. Félaganum og hundinum var mjög brugðið þegar að þeim ók golfbíll, sem tók stóran hluta stígsins. Bílnum ók maður á áttræðisaldri með golfsett í farangrinum. Stefnan var í áttina að Golfklúbbi Ness á Suðurnesi. Félagsmaðurinn sagði að sem betur fer hefði þetta verið árla á laugardagsmorgni og frekar fáir á stígnum enda ljóst að golbíll á göngustíg er aðför að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.