Erfiðast að stela Citroën C5
Samkvæmt nýrri sænskri rannsókn á 120 nýjum bílum af ýmsum tegundum og gerðum er Citroën C5 sá bíll sem erfiðast er að stela. Þessi rannsókn er unnin fyrir tryggingafélögin í Svíþjóð af New Vehicle Security Assessment – NVSA. Tryggingafélögin eru að endurskoða forsendur gjaldskráa sinna og munu þjófavarnir bílanna framvegis hafa áhrif á iðgjöld.
NVSA kemur frá Bretlandi og hefur skoðað þjófnaðarvarnir í bílum og sett upp einskonar staðal og einkunnaskala sem vísar til þess hversu erfitt eða auðvelt er að brjótast inn í bíla og aka í brott á þeim. Samkvæmt NVSA eru þjófnaðarvarnir ágætar í um þriðjungi nýrra og nýlegra bíla og lélegar í öðrum þriðjungi. Margar bílategundir vantar inn í rannsóknina vegna þess að framleiðendur bílanna hafna því að þeirra bílar séu rannsakaðir og neita að gefa nauðsynlegar upplýsingar um þá. Þær tegundir sem hér um ræðir eru m.a. BMW, Mercedes, Kia, Nissan og Honda. Stjórnandi NVSA í Svíþjóð segir það fyrst og fremst dapurlegt að forsvarsmenn þessara bílaframleiðenda skuli haga sér svona. Það sé sjálfsagður hlutur að neytendur fái að vita hversu þjófheldir bílar eru. Þá sé það athyglisvert að nokkrir þeirra bíla sem ekki fást með í þessar rannsóknir er á listum yfir þá bíla sem mest er stolið.
Sá bíll sem best er varinn gegn þjófum er sem fyrr segir Citroen C5. Aðrir vel þjófavarðir bílar eru síðan ýmsar gerðir Volvo, Audi, Volkswagen, Porsche, Renault, Seat og Saab.