„Erlendu“ bílalánin innlend
Þau stórtíðindi gerðust fyrr í dag að Hæstiréttur felldi dóm í tveimur málum sem varða myntkörfulán vegna bifreiðakaupa. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt í báðum þessum málum en komist að sinni hvorri niðurstöðunni; annarsvegar þeirri að um hefði raunverulega verið að ræða erlent lán en hins vegar að svo hefði ekki verið. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að um innlend lán hefði verið að ræða í báðum tilfellum, en lánafyrirtækin sem í hlut áttu hefðu með ólögmætum hætti reynt að gengistryggja þessi lán með gengi erlendra mynta gagnvart krónu. Sá gerningur brjóti hins vegar gegn lögum um vexti og verðtryggingu því einungis sé heimilt að verðtryggja lánaskuldbindingar í íslenskum krónum með tengingu við neysluvísitölu, ekki við gengi erlendra gjaldmiðla.
Dómar þessi eru tímamótadómar hvernig sem á málin er litið og nokkur óvissa er um hvert framhaldið verður. Lögmenn FÍB eru þessa stundina að rýna í dóminn og er fréttatilkynningar frá FÍB að vænta á föstudag hér á fréttavef FÍB vegna þessa. Þeim félagsmönnum sem tekið hafa þessi svokölluðu erlendu lán skal ráðlagt að lesa vel lánasamninga sína og fylgjast jafnframt vel með því hver viðbrögð lánafyrirtækjanna og stjórnvalda verða í framhaldinu.Vænta má viðbragða þessara aðila um miðja næstu viku.
Fjallað verður ítarlega um þetta mál í FÍB blaðinu sem kemur út í byrjun næstu viku.